top of page

Atvinnusaga við Ingólfsfjörð 1915-1971

Hér verður atvinnusagan við Ingólfsfjörð lauslega rakin frá 1915, þegar Guðjón Guðmundsson leiðir norska síldarflotan inn á Ingólfsfjörð og til ársins 1971 þegar allir íbúar flytja burt. Höfundur hefur mælt upp og teiknað  allar síldarstöðvar hús og lóðir við fjörðinn nema Munaðarnesstöðina. Með níu teikningun er rakin öll uppbygging Eyri í tímaröð frá 1916 til 1952. Sú vinna hófst með upplýsingaöflun 1992 og var lokið 2014.

 

Í umfjöllun er stiklað á stóru í tímaröð, skotið inn fréttum úr blöðum en jafnframt vísað í kafla II. sem er nánar umfjöllun um staði og ýmis önnur atriði ásamt heimildaskrám.  Myndir, leiðréttingar og viðbætur eru vel þegnar. Höfundur biðst jafnframt velvirðingar á villum og

eða missögnum.

IMG_0904_edited.jpg

Eyri við Ingólfsfjörð

 

Eyri við Ingólfsfjörð er lítil jörð átta hundruð að fornu mati, og án hlunninda. Bændur höfðu kindur eina kú og réru til fiskjar þegar gaf. Ekkert hafði breyst um aldir en svo kom síldin. „En svipull er sjávarafli“. Mokveiði svo ekki hafðist undan að salta, verðfall  eða hvert síldarleysissumarið rak annað. Sól og blíða eða landfastur hafís fram á sumar, harðindi og þröngt í búi strandamanna.

Síldarspekúlantar komu og fóru, ýmist vellauðugir eða blásnauðir. „Vélvæðingin gekk í garð við Ingólfsfjörð með suðandi gufuvélum. Norskir síldveiðimenn á Valleyri  komu með mótorbát. Háværir vélarskellir nýtt fyrir mönnum og báturinn var  kallaður Litli-Skellur. Fátt hafði breyst í aldanna rás en með þessum iðnaði runnu upp nýir tímar og menn eignuðust sín fyrstu gúmmístígvél.“ (Gunnar á Eyri)

Úti í heimi geisaði fyrri heimsstyrjöldin með öllum sínum hryllingi.  Á þeim árum eru við Ingólfsfjörð eru stigin fyrstu sporin með nýjum atvinnutækifærum til aukins frelsis og framfara. Fólk fékk greidd vinnulaun í peningum í fyrsta sinn. Yfirvöld fela húsmanni á Eyri að annast afgreiðslu erlendra skipa sem leita lands í Árneshreppi og heimta af þeim tolla og gjöld í landssjóð. „Argasta kotið í Árneshreppi“ Eyri er orðinn miðpunktur þess sem er að gerast í hreppnum. Húsmaðurinn á Eyri er höfðingjadjarfur og fylgir öllu fast eftir.

 

Sagt er að Norskir síldveiðimenn hafi komið sér upp geymslustað fyrir net, salt og tunnur á Eyri við Ingólfsfjörð  upp úr aldamótum 1900. Má af því ætla að þeir hafi á þeim tíma ætlað sér að hefja þar söltun sem ekki varð af fyrr en síðar. (Gunnar á Eyri)

 

Veturinn 1915 hafði verið nokkuð harður, hafís var enn við norðurland og norður af Horni fram á sumar. Það var í júlímánuði 1915 að Guðjón Guðmundsson réri við þriðja mann til fiskjar frá Eyri. Er leið á daginn hvessti upp með vestan roki Guðjón og hans menn hrakti undan veðrinu í átt að Norskum síldveiðiskipum sem þarna voru. Tókst þeim að ná til eins þeirra, Barða frá Álasundi og voru teknir um borð og bátnum fest aftaní skipið. Fengu þeir hinar bestu viðtökur frændum vorum Norðmönnum. Veiðiskipin sem þarna héldu sig gátu ekki stundað veiðar og erfitt var að haldast við í veðrinu. Hafði skipstjóri orð á því við Guðjón hve hafnleysið á þessum slóðum væri bagalegt og hvergi skjól nema á Reykjafirði. Guðjón kvað það ókunnugleika því í Ingólfsfirði væri lífhöfn fyrir öllum áttum og innsigling greið þeim sem til þekktu. Varð nú að ráði að Guðjón vísaði þeim leiðina inn á Ingólfsfjörð. Tók hann sér stöðu á stjórnpalli hjá skipstjóra og var síðan haldið af stað. Flotinn sem þarna hafðist við kom í humátt á eftir og lagðist við festar í skjóli inni á Ingólfsfirði. Norðmenn sáu strax kosti staðarins og föluðust eftir lóðum undir síldarstöðvar. Strax og þetta fréttist hófst mikið kapphlaup um lóðir beggja vegna við Ingólfsfjörð. Fljótlega fengust lóðir í landi Seljaness á Valleyri en á Eyri gekk það hægar fyrir sig. Seljanes var í einkaeign en Eyri og Ingólfsfjörður voru þjóðjarðir og urðu leigutakar því að bíða svara umboðsmanns þeirra sem var Halldórs Júlíussonar sýslumaður sem þá sat á Borðeyri. Svör hans voru jákvæð og árið eftir 1916 var úthlutað á Eyri lóðum til þriggja Norðmanna. (skjöl Gunnars á Eyri)

Alls voru útmældar átta lóðir undir síldarstöðvar  á Eyri sumarið 1916 og tvær innan við Eyrarkleif í landi Ingólfsfjarðar. Fljótlega voru lóðirnar komnar í fimmtán við fjörðinn. Um skeið var söltuð síld á fimm stöðum við Ingólfsfjörð. Það var á Valleyri, Teigastöð, Kleifastöð, Eyri og á Munaðarneshlíð.

  

Síldarævintýrið við Ingólfsfjörð hefst á Valleyri

 

Líklegt er að lögmennirnir Sveinn Björnsson og Guðmundur Hannesson úr Reykjavík hafi haft veður af komu Norðmanna á Ingólfsfjörð því þeir höfðu snemma árs 1916 tekið á leigu tvær stórar lóðir úr landi Seljanes sitt hvoru megin Valleyrar fyrir 200 krónur á ári hvora. Samsumars endurleigði Sveinn sína lóð Hans Langvað sem var sú syðri og náði frá Valleyri inn að Hellranesi.

 

Leigutakinn á Valleyri var sem fyrr segir Hans Langvad síldarspekúlant frá Álasundi í Noregi. Hann kom síðsumars 1916 á stórri þrísigldri skonnortu og með línuveiðara. Skipin voru hlaðin tunnuefni, salti og kolum auk tækja til söltunnar. Einnig voru með vagnar sem gengu á teinum til flutnings á kolum og salti. Meðferðis var efni í bryggju, plan og einnig til sniðið efni í hús fyrir starfsfólk. Bryggja og söltunnarplan var sett niður innan við Valleyrina. Þar er aðdjúpt og skjól fyrir norðanáttinni. Gott íveruhús (brakke) 10.5x 17,5 álnir að grunnfleti, hæð og ris var reist á steyptum undirstöðum ofarlega á Valleyri. Einhver fleiri hús voru reist. Þessum framkvæmdum stjórnaði Langvad sjálfur. (Jónas Sveinsson Lífið er dásamlegt. Helgafell 1969

 

Norðmenn hefja uppbyggingu á Eyri      

 

Upphafið var að firmað Bræðurnir Einarsson á Raufarhöfn sótti um lóð á Eyri í desember 1915. (hafa að líkindum leppað fyrir Peter Skarbövik). Lóðin fékkst leigð til 40 ára og var útmælda  þann 30. júlí 1916. Staðsetning hennar var milli tveggja farvega sem Eyrará valdi sér til skiptis um Eyrina á þeim tíma. (skjöl Gunnars á Eyri) Stærð lóðarinnar var 90 fet (27,5m) á land upp með austari farvegi Eyrarár og 72 fet (22m) upp með vestari farvegi. Bein 233 feta lína milli  farveganna uppi á Grundinni og 239 fet (103,4m) með sjó fram. Norðmenn  hófu síldarsöltun á Raufarhöfn 1900. Firmað Bræðurnir Einarsson var í samstarfi við  þá  með síldarplan á Raufarhöfn og hugðist færa út kvíarnar. Fulltrúi þess við útmælingu og samninga var Johan Reinesen síldarskipstjóri á E/S Svalbarð frá Álasundi. Peter Skarbövik var sagður höfuðpaurinn í framkvæmdum á Eyri.

 

Norðmennirnir komu síðsumars með efni  í hús, bryggju og plan.  Húsinu var valinn staður austast á lóðinni þar sem Rækjuverksmiðjan var seinna reist. Það  var strax sett upp og tekið í notkun.

 

Kleifastöðin

 

Mikið kapphlaup varð um síldarstöðvalóðir við Ingólfsfjörð. Norskir síldarspekúlantar náðu strax bestu stöðunum Valleyri og Eyrinni vestan Eyrarár. Ólafur Guðmundsson á Eyri fékk leigðar lóðir undir síldarstöðvar á þrem stöðum við Ingólfsfjörð. Á Munaðarneshlíð, Teigum og inn undir Eyrarkleif. Þegar hann fær Kleifalóðina lætur hann hinar af hendi til annara athafnamanna. Ólafur fékk til liðs við sig þrjá kaupsýslumenn í uppbyggingu á þeirri lóð þá Pétur A. Ólafsson útgerðarmann Patreksfirði, Gústaf Grönvold síldarkaupmann Siglufirði og Helgi Jónsson kaupmann Reykjavík og voru allir með fjórðungshlut hver. Stöðin var reist 1918 og stjórnaði Ólafur allri uppbyggingu og rekstri. Á Kleifastöðinni voru mikil umsvif í stuttan tíma.

 

Grunnurinn undan Kleifastöðvar húsinu. Stutt var í bæjarlækinn.

Mynd: Ágj.

 

Babylon á Patreksfirði, Kleifastöðvarhús við Ingólfsfjörð og þarna Laugavegur 86 Reykjavík og nú Aflagrandi 4 Reykjavík.

                       

Stöðin á Munaðarneshlíðinni

 

Svo virðist að Stefán Jónasson skipstjóri og útgerðarmaður á Akureyri hafi fyrstur fengið lóð undir söltun á Munaðarneshlíð. Stefán og bræðurnir Ásgeir og Guðmundur Péturssynir athafnamenn á Akureyri eru um þessar mundir í samstarfi.

 

Samningur um lóð líklega norðan lóðar Stefáns var gerður vorið 1917 milli Ólafs Guðmundssonar og Gustav Grönvold annarsvegar og Jóns Elíasar Jónssonar fyrir hönd jarðeiganda móður hans og annar um lóð norðan hinnar 1919. Þá er Gústav látinn og seinni samningurinn því aðeins á ámilli Ólafs og Jóns. Þessir samningar eru varðveittir. (Strandapósturinn 40 árg. bls.106-112)

 

Þarna voru gerð plön og reist tvö hús. Að því stóðu bræðurnir Ásgeir og Guðmundur Péturssynir frá Akureyri. Heimildir herma að þarna hafi aðeins verið saltað sumarið 1919. Að líkindum hafa síldveiðiskipskip Ásgeirs Péturssonar og Ingvars Guðjónssonar lagt þar upp. (Gunnar á Eyri) Fyrir landi var lagt gömlum 92 lesta vélarvana eikar barki í eigu Ásgeirs Péturssonar sem Leslie hét og var skipið notað sem íbúðir fyrir verkafólk. Þetta skip slitnaði upp og rak inn á Rifið í botni Ingólfsfjarðar haustið 1919 og brotnaði þar. Enn sést þar gufuketillinn úr því  um fjöru.

 

Ekki er ljóst hvað varð um þau hús og bryggjur sem þarna stóðu nema að annað húsið hafi farið að Felli. (Gunnar á Eyri)

 

Teigastöðin

 

Forsagan er sú sem fyrr segir að mikið kapphlaup varð um síldarstöðvarlóðir við Ingólfsfjörð 1915 og næstu ár. Búið er að leigja allt Eyrarlandið innan við  Ána 1917. Ólafur Guðmundsson á Eyri tók á leigu eina stóra lóð í landi Eyrar sem hann notaði sjálfur undir Kleifastöðina með sínum þáverandi viðskiptafélögum. Hann tók einnig á leigu lóðir í landi Munaðarness og Ingólfsfjarðar.  Hann endurleigði báðar Munaðarneslóðirnar og lóðina undir Teigastöðina. Stöðin var byggð við Teiganes, norðanvert við Ingólfsfjörð í landi samnefnds bæjar.  Þar er undirlendi ekkert en stutt út í marbakkan og því auðvelt að gera hafnarmannvirki.  Þarna er líka gott skjól fyrir norðlægum áttum.

 

Sumarið 1919 var síldveiðimönnum gjöfult en saltendum við Ingólfsfjörð og víðar varð það erfitt en um leið lærdómsríkt. Síldveiði og söltun aðal fréttaefnið enda mikið í húfi.

 

„Frá Ingólfsfirði fréttist sömuleiðis að síldarburður á land sé svo mikill að fólkið er orðið uppgefið og veikt, varð að kasta þar 800 tunnum af síld í sjóinn í fyrradag, sem engin tök voru á að koma í salt. Þar er engin síldarbræðsla. Alls mun nú, á landinu, vera búið að salta nær 100 þúsund tunnur.“    (FRAM 2. ágúst 1919).

 

 

Íslenskir athafnamenn á Eyri: Thorsteinssonstöðin

 

Th. Thorsteinsson (Þorstein Þorsteinsson)  fékk útmældar  lóðir á Eyri 1919 og flutti þangað stöð sem hann hafði starfrækt á Hjalteyri við Eyjafjörð. Th. gerði tvær vandaðar bryggjur, og plan með stöðvarhúsi ofan þeirra

 

Th. Thorsteinsson bragginn sem enn stendur 2014 kom frá Hjalteyri ásamt stöðvarhúsi og plani. Þessi stöð var starfrækt af ýmsum aðilum fram til 1950. Rekstraraðilar voru fyrst Th. Thorsteinsson og samhliða þáverandi viðskiptafélagar hans þeir Óskar Halldórsson og Garðar Gíslason. Stöðin virðist vera lítið eða ónotuð í allmörg ár en  Ólafur Guðmundsson rekur hana 1932-35 þá taka við Egill Ragnars og Karvel Jónsson og síðast Björgvin Bjarnason frá 1942 til 1950. Eftir það hefur ekki verið söltuð síld á Ingólfsfirði.

 

Þriðji áratugurinn

 

Þriðji áratugurinn byrjar illa með harðindum til lands og sjávar. Síld er svikult fé sögðu menn. Allflestir síldarsaltendur eru í miklum vanda eftir „Krakkið“ 1919 ýmist gjaldþrota eða verða að selja allt og taka stórlán til að greiða skuldir. Ásgeir Pétursson er einn þeirra og meðal tilgreindra veða hans er hús og bryggja við Ingólfsfjörð og þá vafalaust á Munaðarneshlíð. Sumarið 1921 er aðeins ein stöð rekin við Ingólfsfjörð.

 

Guðjón Guðmundsson

 

Guðjón Guðmundsson er skráður húsmaður á Eyri. Hann hefur verslunarrekstur 1920 í samkeppni við Kaupfélagið og höndlar með ólíklegustu hluti. Hann á og gerir út bát, er umboðsmaður fyrir Eimskipafélagið og Skipaútgerð ríkisins. Hann er stjórnarformaður Sparisjóðs Strandamanna og hreppstjóri og ber því talsverða ábyrgð.

Guðjón rak búskap í smáum stíl. Var með að jafnaði 70 kindur á Eyri, 30 í beitarhúsum á Grímsnesi og tvær kýr. Guðjón var með refabú um tíma á fimta áratugnum skamt ofan við bæinn.  Hann var aðal hvatamaður að rekstri og framkvæmdum á Eyri alla sína tíð og lét ma. af hendi hluta túns Eyrar undir síldarstöðvar.  (sjá bls.??Hreppstjórinn á Eyri)

 

Fjórði áratugurinn

 

Engin síldarútgerð hafði verið við Ingólfsfjörð í nokkur ár (10?) einsog fyrr segir þar til  Ólafur Guðmundsson tekur Thorsteinson stöðina á leigu 1932. Til þess þurfti talsvert áræði í ljósi heimskreppunnar sem þá hélt flestu niðri.

 

Ingvar Guðjónsson útgerðarmaður Akureyri  gerir út eitt gufuskip og fjóra báta á síldveiðar í sumar frá Ingólfsfirði. Engin síldarútgerð hefur verið frá Ingólfsfirði undanfarin ár.    (Vísir 13.07.1932)

 

Halldór B. Halldórsson Grænagarði Ísafirði hefir í sumar  rekið síldarsöltun á Ingólfsfirði á Ströndum. Hefir hann alls saltað þar  nú um 8 þús. tunnur.

                                                                                            (Vesturland 1.09.1934)

 

Thorsteinsson stöðin var eina starfhæfa síldarstöðin við Ingólfsfjörð á þessum tíma. Ofangreindir aðilar hafa því líklega verið í samstarfi við Ólaf Guðmundsson. Þannig dreifðu menn áhættunni,  brenndir af hruninu 1919.

 

Á seinni hluta fjórða áratugarins voru starfandi tvær stöðvar á Eyri, Thorsteinsson stöðin sem Ólafur Guðmundsson leigði framanaf en Egill Ragnars og Karvel Jónsson keyptu stöðina. Þeir byggðu Egilsbraggan / Lagerhúsið og endurbættu og stækkuðu Thorsteinsson planið. Ólafur kom síðan upp eigin stöð 1936 og rak til 1942.

 

Árið 1934 liggur fyrir ákvörðun um að SR (Síldarverksmiðjur ríkisins) byggi verksmiðju á Húnaflóasvæðinu. Valið stóð milli tveggja staða. Eyrar við Ingólfsfjörð og Siglufjarðar.                 Siglufjörður varð fyrir valinu enda hafði Siglufjarðarbær boðið SR ýmis lén ef verksmiðjan                               yrði byggð þar. (Síldarannáll Hreins Ragnarssonar bls. 207)

 

Hreppapólitíkin var óvægin og rekin af miklum krafti. Staðsetning þeirrar stóryðju sem síldarverksmiðjur voru skipti miklu máli en fleira kom til.

 

„Þá má geta þess, að allir þeir þrír sérfræðingar, sem síldarverksmiðjunefndin fékk með sér til aðstoðar, þegar hún fór að athuga þá staði, sem til mála gætukomið, að síldarverksmiðja yrði sett á, fara allir mjög lofsamlegum orðum um Ingólfsfjörð.

Ólafur Þórðarson, segir í skýrslu sinni: Sú eyri (þ. e. Eyri við Ingólfsfjörð) virðist ákjósanleg til byggingar nefndrar verksmiðjubyggingar. Efni að mestu leyti á staðnum, (möl, vatn og sandur), stuttar bryggjur og Eyrin slétt að mestu. Staðurinn og fjörðurinn því mjög heppilegur fyrir slíka verksmiðju. Fjörðurinn er grynningalaus og akkerispláss gott, hvar sem er í firðinum. Viti er kominn á Seljanesi norðan Ingólfsfjarðar, sem þó líklega væri betri sem hornviti. Viti yrði nauðsynlegur á Hrúteyjarnesi, er sýndi hvítt Ijós yfir siglingaleiðina milli Selsskerja og Munaðarness. Þá væri siglingaleiðin örugg í siglingabjörtu veðri, hvort sem væri á nóttu eða degi.“

                                                                                                          (Ægir 1.11.1934)

 

„Húnaflóasíldin er talin stærri og feitari en annarsstaðar hér við land og því mest eftirsótt til söltunar, en hingað til hefur ekki verið hægt að notfæra sér hana sem skyldi, sökum fjarlægðar frá söltunarstöðvunum.      (Þórður Runólfsson í Ægir 1.11.1934)

 

Ýmsar deilur urðu um uppbyggingu og staðsetningu síldariðnaðar. Stóryrðin voru ekki spöruð hvorki í ræðu né riti en nálægðin við miðin réði þó mestu.

 

„En síst af öllu ætti að auka frekar en orðið er síldariðnað á Siglufirði eða Ingólfsfirði,  því báðir þeir staðir liggja á  hrjóstrugum og illviðrasömum útkjálkum.“

                                                                                                    (Mbl. 8.8.1936 Páll V.G. Kolka)

 

„Kaupstaðirnir senda aftur á móti verkalýð sinn til síldarvinnu á sumrin á afskekktustu og ömurlegustu staði landsins, þar sem reginfjöll og firnindi útiloka bæði sól og alla aðdrætti ódýrrar og hentugrar fæðu úr frjósömum sveitum. Fólkið lifir þar á fiski, gömlum kartöflum, ef þær eru fáanlegar, hafragraut, sætsúpugutli, kaffi og kringlum eða hveitibrauði og smjörlíki. Þetta er fjörefnasnauð fæða, — hreinn og beinn hallæriskostur — borið saman við góðan innlendan mat, þar sem mjólk og mjólkurafurðir eru einn aðalþátturinn.“             (Mbl. 8.8.1936 Páll V.G. Kolka  Blönduósi)

 

Það hefur legið illa á kallinum og hann talar niður til fólks og staða. Þess verður að geta að heimskreppan var í hámarki og fólk flykktist á þá staði sem vinnu von var ma. Siglufjörð og Ingólfsfjörð margir upp, á von og óvon.

 

Erlend móðurskip

 

Sænskt síldarsöltunarfélag Öckerö fékk aðstöðu á Eyri sumarið 1936. Sú aðstaða fólst í því að þeir fengu að geyma ýmsan varning í landi svo sem oíutunnur, síldartunnur salt og veiðarfæri. Þeir fengu vatn og keyptu gjarnan kjöt af nýslátruðu geldfé og létu í staðinn  öngla færi og hnífa en ekki síst brennivín. Félagið var með móðurskip sem saltað var í og snurpunótabáta við veiðarnar. Erlend veiðiskip þurftu að halda sig utan við þiggja sjómílna landhelgina eins og hún var á þessum tíma. Söltun í skipum fór fram utan við landhelgina og þótti fremur slæm vinna. (Gunnar á Eyri) (Sjá bls.00 Erlend móðurskip)

 

Sumarið 1936 eru saltaðar 13.655 tunnur á Ingólfsfirði. Þá eru tvær stöðvar starfandi á Eyri, Thorsteinsson stöðin sem Egill Ragnars og Karvel Jónsson hafa keypt og stöð sem Ólafur Guðmundsson byggði á grunni Norðmannastöðvarinnar frá 1916.

 

Ólafur Guðmundsson

 

Ólafur var sem fyrr segir aðal maður í stofnun Teigastöðvarinnar 1918. Lítill sem enginn rekstur var við Ingólfsfjörð frá „Krakkinu“ þar til að Ólafur tekur síldartöð Th. Thorsteinssonar á leigu 1932 og rekur til 1935 er aðrir aðilar tóku við henni. Ólafur sótti um land austan við Thorsteinsson lóðina, það er lóð þá er Bræðurnir Einarsson höfðu fengið 1916 og Peter Skarbölle hafði byggt á bryggju, plan og hús. (sjá Norðmannahúsið á Eyri). Ólafur fékk lóðina stækkaða  og hóf þar miklar framkvæmdir. Fyrsta verkð var að koma upp vélknúinni sögun sem sett var niður í Kríuvarpinu (Sjá Fyrsta vélsögun á Ströndum. Strandapósturinn 35. árgangur 2003) Ólafur keypti rekavið af bændum og hóf sögun á viði í bryggjur plön og hús. Ólafur kom síðar að stofnun Sögunar h/f og stofnun og rekstri rækjuverksmiðju á Eyri. (Sjá nánar um rekstur Ólafs í umfjöllun um Kleifastöð, Ólafsverksmiðju, Ólafsbragga, báta á Eyri ofl.)

 

Að lesta flutningaskip með sídartunnum var vandasamt verk og erfitt. Til að sjá um það á Eyri var fenginn Reykvískur sérfræðingur Þorlákur Jónsson sem kallaður var Tunnu-Láki. Tunnustúfun í lest skipa var ekki fyrir nema hraustustu menn og galt Láki fyrir það „Siglufjarðartaxta“ sem var tvöfalt kaup. (Gunnar á Eyri)

 

 

Lagerhúsið

 

Lagerhúsið byggðu Egill Ragnars og Karvel Jónsson 1936.  Það var um 320 fermetrar á einni hæð. Í því setti Karvel upp verslun og rak.

Á meðan bygging verksmiðju Ingólfs hf. stóð yfir bjuggu byggingameistarinn og múrarameistarinn þar auk þess sem Guðjón Guðmundsson hafði þar aðstöðu en hann annaðist útborgun launa til starfsmanna við bygginguna.

Ingólfur h/f var með sex íbúðarherbergi í húsinu, ransóknarstofu, skrifstofu, lager og rak verslun í húsinu meða verksmiðjan starfaði.

 

Ólafsverksmiðjan

 

Tækjakostur Ólafsverksmiðjunnar var gamall og úreltur frá upphafi enda ekki auðvelt að fá leyfi og fé til tækjakaupa á kreppuárunum. Hún tekur til starfa um mitt sumar 1937 og vann úr 400 málum það sumar. Framleiðslan var mjöl, lýsi og svokallaðar síldarkökur. Í henni var svokölluð dúkapressa af gamalli gerð hert með handafli. Í pressunni er vökvinn pressaður úr soðnu síldarmaukinu. Þessum körum var þannig fyrir komið að lýsið sem ofan á settist í fyrsta kari rann sjálfkrafa úr því í gegnum pípu yfir í annað og svo koll af kolli, og í hverju kari varð eitthvert botnfall eftir svo að í síðasta karinu var lýsið orðið hreint og tært og var frá því rennt á eikarföt. Nánar um Ólafsverksmiðjuna á Eyri. 

Ólafur keypti ma. síld af Færeyingum. Hér eru færeyskir sjómenn staddir við Th. braggan þar sem Ólafur bjó með sitt fólk. Mynd Hansína Guðmundsdóttir 1933

 

 

Verksmiðja Ingólfs h/f

 

Aðdragandi verksmiðjubyggingar Ingólfs hf. var nokkuð langur. Margt kom þar til heimskreppan, innflutningshöft og gjaldeyrisleysi. Geir Thorsteinsson ritar Hreppsnefnd Árneshrepp bréf  dagsett 23.4.1937 þar sem hann óskar eftir að sveitarfélagið útvegi lóð úr landi Eyrar innan við Th. lóðina 200 m með sjó fram. Hreppsnefnd samþykkir þetta samhljóða þó ekki fyrr en 10. nóvember 1937 og felur Guðjóni  Guðmundssyni að ganga í málið en Egill Ragnars og Óskar Halldórsson voru með ónotaðar leigulóðir á þessu svæði. (skjölÁrneshrepps) Ólafur Guðmundsson átti miklar eignir og stærsta hluta lands á Eyrinni. Við hann þurfti samkomulag. „Það gekk seint  og um tíma var áformað að byggja verksmiðjuna innan við Eyrarkleif í landi Ingólfsfjarðar“. (Hjörtur Hafliðason)

 

Lóðin var ekki eini þröskuldurinn því mikil innflutningshöft voru í gangi sem fyrr segir og leyfi vélakaupa frá stjórnvöldum ekki auðfengin.  Árið 1942 fékkst loks umbeðið leyfi frá ríkisstjórn, samningar tókust og hafist handa við byggingu nýrrar síldarverksmiðju á Eyri. 

 

 

Bílar

 

Vörubílar voru tveir á staðnum. Annar var Ford en hinn GMC og  kallaður Trukkurinn. Á þeim var ekið steypusandi innan úr Ingólfsfirði og fyllingarefni að og undir þrærnar og mjölhúsið. Á þeim var ma. ekið kolum frá bryggju og við útskipun mjölpokum ekið frá mjölhúsi að skipshlið.

 

 

Síldarverksmiðja Ingólfs hf.

 

Í sjálfu verksmiðjuhúsi Ingólfs hf. voru eftirtalin rými sem höfðu vert sitt hlutverk: Þjónusturými sem var vélaverkstæði, rafmagnsverkstæði, mótorhús og ketilhús.

Vinnslurými: Þrær, sjóðarahús, pressu og skilvinduhús, þurrkarasalur, mjölhús og lýsistankur.

Önnur þjónusturými: Í Lagerhúsi. Skrifstofur, ransóknastofa, verslun og geymslur auk fimm íbúðarherbergja.  

Í Ólafsverksmiðju: Eldsmiðja, bakarí, þvottahús, rafmagnstækjalager og geymsla.

Í Ólafsbragga var á jarðhæð: Snyrtingar, eldhús og matsalur, matsalur yfirmanna og ein íbúð. Á efri hæð Ólafsbragga var ein íbúð, loftskeytastöð og 10 íbúðarherbergi öll með handlaugum.

Í kjallara Thorsteinsson braggans var frystigeymsla, fittingslager, þvottahús, snyrting og geymsla.

Á hæðinni voru íbúðarherbergi og á efri hæð var eldhús og 5 íbúðarherbergi. Alls voru í húsinu sem fyrr segir 50 rúm, ein eldavél og eitt klósett.

Bretabraggarnir fimm hýstu verkamennina sem unnu í verksmiðjunni.

 

Löndunarbryggja var römmuð niður beint fram af þrónum. Fremst á henni einsog risi stóð löndunarkraninn fallega smíðað tólf tonna stikki. Frá krananum upp bryggjuna lá löndunarbandið sem flutti síldina frá krananum í þrærnar.

bottom of page