top of page

Ítarefni og heimildir

Nánari umfjöllun um einsaka þætti hér á síðunni ásamt heimildaskrám

IMG_0904_edited.jpg

Síldarævintýrið við Ingólfsfjörð hefst á Valleyri

Líklegt er að lögmennirnir Sveinn Björnsson og Guðmundur Hannesson úr Reykjavík hafi haft veður af komu Norðmanna á Ingólfsfjörð því þeir höfðu snemma árs 1916 tekið á leigu tvær stórar lóðir á úr landi Seljanes sitt hvoru megin Valleyrar fyrir 200 krónur á ári hvora. Samsumars endurleigði Sveinn sína lóð Hans Langvað sem var sú syðri og náði frá Valleyri inn að Hellranesi.

 

Leigutakinn á Valleyri var sem fyrr segir Hans Langvad síldarspekúlant frá Álasundi í Noregi. Hann kom síðsumars 1916 á stórri þrísigldri skonnortu og með línuveiðara. Skipin voru hlaðin tunnuefni, salti og kolum auk tækja til söltunnar. Einnig voru með vagnar sem gengu á teinum til flutnings á kolum og salti. Meðferðis var efni í bryggju, plan og einnig til sniðið efni í hús fyrir starfsfólk. Bryggja og söltunnarplan var sett niður innan við Valleyrina. Þar er aðdjúpt og skjól fyrir norðanáttinni. Gott íveruhús (brakke) 10.5x 17,5 álnir hæð og ris var reist á steyptum undirstöðum ofarlega á Valleyri. Einhver fleiri hús voru reist. Þessum framkvæmdum stjórnaði Langvad sjálfur. (Jónas Sveinsson Lífið er dásamlegt. Helgafell 1969) Sjá nánar bls ?? Valleyrarstöðin

 

Norðan lóðar Langvad  hafði Guðmundur Hannesson lögfræðingur sem fyrr segir  leigt stóra lóð. Hann endurleigði syðsta hluta hennar Kristjóni Jónssyni sem kom þar upp lítil verslun fyrir starfsfólk á Valleyri. (Gunnar á Eyri)

 

Á Valleyri voru mikil umsvif  og mun Langvad hafa fiskað og saltað í rösklega 15 þúsund tunnur ( um 1.500 tonn) þennan stutta tíma. Matsmaður og verkstjóri í landi yfir rösklega 100 söltunnarstúlkum var sextán ára piltur Jónas Sveinsson síðar læknir. Jónas var „fjöllyndur, djarfur og geðríkur“(Abl. 3.08.1967 Helgi Sæmundsson)

 

Fyrsta síldin sem ég eignaðist á ævinni var á Gjögri 1916. Fór með síldina saltaða frá Reykjafirði til Ingólfsfjarðar og bauð norskum síldarkaupmanni Hans Langvad. Líkaði síldin vel. Ísfirskar blómarósir voru þar í síld um sumarið. Slegið upp balli um kvöldið hjá Langvad. (Óskar Halldórsson)

 

Síldina flutti Langvad á markað með skonnortunni. Fyrri heimstyrjöldin stóð sem hæst og til að forðast breska flotann sigldi skonnortan í norður og þræddi austur með ísröndinni og síðan suður Þýzkalands og seldi þar. Þetta gekk vel en Bretar komust að viðskiptunum og settu Langvad stólinn fyrir dyrnar svo hann kom ekki meir. Vorið 1918  sendi Langvad Jónasi Sveinssyni símskeyti og fól honum að selja fyrir sig tunnur, kol og salt sem eftir var á Valleyri. Jónas auglýsti góssið og kaupandi gaf sig fram  sem var Magnús Thorberg á Ísafirði. Jónas fór að Valleyri með umboðsmanni Magnúsar sem gerði athugasemdir við ástand varningsins en eftir á þeir höfðu fengið sér aðeins neðan í því gengu kaupin greiðlega en mikið var þó enn eftir af tunnum og salti. (Jónas Sveinsson)

 

Svo er að sjá að Jónas Sveinsson hafi rekið Valleyrarstöðina áfram því í ágúst 1917 auglýsir hann 10 tonn af fóðursíld til sölu. Sumarið 1918 og 1919 saltaði Jónas þar  fyrir  Guðmundur Kristjánsson skipamiðlara og fleiri. Langvad átti stöðina áfram ásamt nokkrum lager þar með voru kol og salt í tunnum.

 

 

Auglýsing frá Jónasi í Vísi 6. maí 1920

 

Á opinberu uppboði 16. júlí 1923  selur Guðbrandur Guðbrandsson hreppstjóri Árneshrepps 435 salttunnur sem Hans Langvaad átti þar eftir. Þar af kaupir Guðjón Guðmundsson á Eyri 25 tunnur á kr 34.20. Salan var að sögð vegna ógreiddra gjalda Hans Langvad. (skjöl Gunnars á Eyri)

 

Einhverjum árum eftir að söltun lagðist af á Valleyri (1928) keypti Guðjón Guðmundsson  stöðina ásamt þeim salttunnum og kolum sem enn voru eftir. Gunnar sonur Guðjóns þá 10 eða 11 ára gamall var látinn róa saltinu og kolunum inn að Eyri með Jóni Gamla á Seljanesi og Guðmundi Hólm. Guðjón reif húsið og endurbyggði sem íbúðarhús Eyri þar sem það stendur enn. Bryggjum og plani kom hann í verð. Brautarteinana undan flutningavögnunum notaði hann í steypujárnabindingu í hlöðu og fjós á Eyri. Einn vagninn var notaður sem pottur til að bræða í hákarlalifur á Eyri. (Gunnar á Eyri)

 

Lóðamál á Valleyri hafa verið endurskoðuð þegar leigutími rann út. Þá er gerð ein lóð sem tekur yfir hluta beggja eldri lóða samkvæmt teikning frá 25.03.1936 sem lýsir því. (Skjöl Árneshrepps)   Sleppa??

 

 

Norðmannastöðin á Eyri

 

Upphafið var að firmað Bræðurnir Einarsson á Raufarhöfn sótti um lóð á Eyri í desember 1915. (hafa að líkindum leppað fyrir Peter Skarbövik). Lóðin fékkst leigð til 40 ára og var útmælda  þann 30. júlí 1916. Staðsetning hennar var milli tveggja farvega sem Eyrará valdi sér til skiptis um Eyrina á þeim tíma. (skjöl Gunnars á Eyri) Stærð lóðarinnar var 90 fet (27,5m) á land upp með austari farvegi Eyrarár og 72 fet (22m) upp með vestari farvegi. Bein 233 feta lína milli  farveganna uppi á Grundinni og 239 fet (103,4m) með sjó fram. Norðmenn  hófu síldarsöltun á Raufarhöfn 1900. Firmað Bræðurnir Einarsson var í samstarfi við Norðmenn  með síldarplan á Raufarhöfn og hugðist færa út kvíarnar. Fulltrúi þess við útmælingu og samninga var Johan Reinesen síldarskipstjóri á E/S Svalbarð frá Álasundi. Peter Skarbövik var sagður höfuðpaurinn í framkvæmdum á Eyri.

 

Norðmennirnir komu síðsumars með efni  í hús, bryggju og plan.  Húsinu var valinn staður austast á lóðinni þar sem Rækjuverksmiðjan var seinna reist. Það  var strax sett upp og tekið í notkun.

 

Sagt var að Skarbövik  hafi keypt það tilbúið í einingum. Húsið var reisulegt og  sterkviðað, gert úr saman boltuðum þriggja feta breiðum einingum sem sumar innihéldu glugga eða hurðir. Eingarnar voru klæddar láréttri vatnsklæðningu og þakið járnvarið. Það var því auðvelt í flutningum og uppsetningu. Stærðin var um 18 x 10,5 álnir  (11.25 x 6.7 m) eða 75.4 fermetrar  hæð og ris  Í öðrum endanum var salur en 2 herbergi og eldhús í hinum. (sjá nánar Norðmannahúsið á Eyri. Ágj)

 

Þeir byggðu stóran skála svo að segja á bakka Eyrarár að innanverðu. Var það flekabygging og þjónaði hlutverki sínu fram til ársins 1926 er það var selt sveitasjóði Árneshrepps og áhugamönnum. Hún var þá færð fram í Árnes, byggð þar upp og þjónaði þar sem samkomuhús hreppsins til fundahalda og skemmtanahalds auk annars, s.s. til íbúðar þegar þess var þörf. „Merkilegt hús og sögufrægt í hugum okkar eldri manna, sem enn muna þann tíma“.  (Bæ 15. apríl 1998 Guðmundur P. Valgeirsson.)

 

 

 

 

Mynd PAÓ frá Kleifastöð. Norðmannahúsið ber yfir bugspjót bátsins við bryggjuna.

 

Hafskipabryggja var gerð  og lítið söltunnarplan ofan hennar. Allt var þetta tilbúið síðsumars með tækjum og tólum, tunnum og salti.

 

Síldarstöð er í landi jarðarinnar, og er leiga eftir leigðar lóðir til síldarstöðva 1440,81 kr. á ári, gengur ¼ af þeirri upphæð til núverandi ábúanda. (Eyri fateignamat 1916)

 

Peter Skarbövik gerði ma. út frá Eyri gufuskipið Nevada. Lítið er vitað um þá útgerð. (Gunnar á Eyri)

Sumarið 1917 voru gerð út frá Eyri þrjú norsk skip frá Álasundi og var afli þeirra 12.900 tunnur.

Sömu skip voru gerð þaðan út sumarið 1918 og fengu þá 21.300 tunnur. (Síldarannáll Hreins

 Ragnarssonar bls. 144-146)

 

Ekki varð meira úr starfsemi þessara félaga við Ingólfsfjörð og ástæðan líklega sú sem höfð er eftir Óli Tynæs Vísi.

 

“Skilyrði þau, sem Englendingar settu Norðmönnum hér að lútandi, voru þanig að ómögulegt var að ganga að þeim. Þeir settu til dæmis upp að hvert einasta skip, fiskiskip jafnt sem  flutningaskip, kæmi við í enskri höfn á leið hingað til Íslands, hvort sem þau hefðu flutning eða ekki, svo og að Norðmenn yrðu að selja þeim síldina og flytja hana sjálfir til Englands, ennfremur að öll fiskiskipin kæmu við í enskri höfn á heimleið, að endaðri vertíð. Þessi skilyrði töldu Norðmenn alveg óaðgengileg, þar sem jafn mikil hætta er að fara til Englands með síld, eins og nú er og þar sem stríðsvátryggingafélögin eru farin að taka svo hátt gjald af skipum þeim, sem fara ínn á ófriðarsvæðið. Það er því alveg áreiðanlegt að ekkert einasta Norskt skip kemur hingað í sumar. Td. liggja 122 gufuskip og 600 mótorskip í Álasundi (heimabæ Peter Skarbölvik) og skipverjar atvinnulausir.”  Óli Tynæs (Vísir 14.7.1917)

 

Stöðin var auglýst til leigu og salt og tunnulager til sölu. Í kjölfarið tóku Íslenskir spekúlantar við.

 

Í jarða og fasteignamati fyrir Árneshrepp frá 1916 segir : No. 34.  Síldarstöðvarhús á Eyri í Ingólfsfirði Eigandi "Bræðurnir Einarsson" Raufarhöfn.** Húsið er úr timbri með járnþaki 18x10,5 ál., þyljað sundur í 3 rúm undir lofti, heldur óvönduð bygging. Byggingunni fylgir hafskipabryggja sem liggur undir skemmdum af hafís.  Eign þessa metum vér á kr. 7000.00.

 

Eyrin og gott skipalægi á Ingólfsfirði og nálægð við þáverandi síldarmið freistað margra innlendra og erlendra „spekulanta“ og ýmis stór áform voru í gangi eins og sjá má af neðangreindu viðtali.

 

„Mér er kunnugt um að þangað (til Íslands) ætla sér margir Norðmenn að stríðinu loknu, og núna liggja í Kristjaníu fullgerðar vélar í bræðsluverksmiðju jafnstóra Evangers-verksmiðjunni, sem á að setja upp á Ingólfsfirði, og vélar í aðra verksmiðju eru pantaðar nú þegar og eiga þær að vera fullgerðar í árslok 1918. Þeir sem ætla að setja upp verksmiðjur þessar, ætla einnig að hafa þar selveiðistöð, því tiltölulega stutt er þaðan fram í Grænlandshaf, og þar eru selirnir mikið veiddir“. (Flest bendir til að þarna sé átt við Peter Skarbövik. Ágj.) FRAM 14. júlí 1917 viðtal við O.Tynæs.

 

Evrópa er í sárum eftir stríðið, kaupgeta þar lítil, síld selst illa og mikil harðindi hérlendis.    Eftir stendur Norðmannahúsið, sem er auglýst til sölu. Húsið var óeinangrað og trekkur í því. Það þótti kalt miðað við torfbæina sem flestir bjuggu í á þessum tíma en var þó var það alltaf í notkun. Í því voru settar upp mk. tvisvar  leiksýningar meðan það stóð á Eyri ma. Ævintýri á Gönguför líklega um 1920. Ýmsir bjuggu í húsinu ma. Hólmfríður Guðmundsdóttir (1895-1927) frá Eyri  og maður hennar Guðmundur Jón Eggert Rögnvaldsson (1892-1934) ásamt börnum. (Gunnar á Eyri)

 

Ekki er ljóst hvenær Guðjón Guðmundsson á Eyri eignast húsið en hann selur Árneshreppi það niðurtekið og uppsett í Árnesi á steyptum grunni samkvæmt kaupsamningi dagsettum 25. maí 1926 á 4.100 krónur. (Skjöl Árneshrepps)

 

Efnt var til samskota í Árneshreppi til að kaupa Norðmannahúsið af Guðjóni á Eyri fyrir samkomuhús. Listi gekk um sveitina sem menn skrifuðu sig á fyrir framlögum, flestir nokkrum tugum króna. Þórarinn Guðmann Indriði Þórðarson „Þóri“ í Fagrahvammi orti vísu á listann sem endaði með þessum orðum. „Sá sem lítinn auðinn á ei má perlum fleyja“. Fram kemur fram í viðskiptabók Guðjóns á Eyri að hann hefur greitt fyrir flutning hússins 150 krónur svo og framlög fyrir nafngreinda menn sem voru í viðskiptum hjá honum.

 

Húsið var í  framhaldi tekið niður og  flutt sjóleiðina að Árnesi. Þá flutninga annaðist Finnbogi Guðmundsson á E/S Hörpu 30 tonna báti sem hann og Magnús bróðir hans á Kjörvogi áttu. Í Árnesi er það notað sem þing og samkomuhús í um 30 ár eða til ársins 1957. Þetta var nokkuð gott hús á þeirra tíma mælikvarða svo fljótlega eftir að það var endurreist í Árnesi var farið að búa í því. Meðal annara bjuggu í því  læknar sem störfuðu í Árneshrepp á þessum árum þar til komið var  upp læknisbústað fyrir þá. (Gunnar á Eyri)

 

Torfi Guðbrandsson skólastjóri kaupir húsið líklega 1957. Árið 1958 er það komið upp á þriðja staðnum og nú við Finnbogastaðaskóla og notað þar sem fjós og hlaða. Því hlutverki gegndi það til 1980 að það var rifið og fargað. (Gunnsteinn Gíslason)

 

 

Norðmannahúsið frá Eyri orðið að fjósi og hlöðu við Finnbogaskóla.

 

** Bræðurnir Einarsson hétu Jón og Sveinn Einarssynir og voru frá Hraunum í Fljótum. Miklir framkvæmdamenn sem ráku útgerð og verslun á Raufarhöfn. Þeir gerðu ma. út Vegu 20 lesta bát á síldveiðar. Sleppa??

„Frá Ingólfsfirði fréttist sömuleiðis að síldarburður á land sé svo mikill að fólkið er orðið uppgefið og veikt, varð að kasta þar 800 tunnum af síld í sjóinn í fyrradag, sem engin tök voru á að koma í salt. Þar er engin síldarbræðsla. Alls mun nú, á landinu, vera búið að salta nær 100 þúsund tunnur.“    (FRAM 2. ágúst 1919). Færa??

 

 

Kleifastöðin

 

Mikið kapphlaup varð um síldarstöðvalóðir við Ingólfsfjörð. Norskir síldarspekúlantar náðu strax bestu stöðunum Valleyri og Eyrinni vestan Eyrarár. Ólafur Guðmundsson á Eyri fékk leigðar lóðir undir síldarstöðvar á þrem stöðum við Ingólfsfjörð. Á Munaðarneshlíð, Teigum og inn undir Eyrarkleif. Þegar hann fær Kleifalóðina lætur hann hinar af hendi til annara athafnamanna. Ólafur fékk til liðs við sig þrjá kaupsýslumenn í uppbyggingu á þeirri lóð þá Pétur A. Ólafsson útgerðarmann Patreksfirði, Gústaf Grönvold síldarkaupmann Siglufirði og Helgi Jónsson kaupmann Reykjavík og voru allir með fjórðungshlut hver. Stöðin var reist 1918 og stjórnaði Ólafur allri uppbyggingu og rekstri. Á Kleifastöðinni voru mikil umsvif í stuttan tíma.

 

 

Pétur A. Ólafsson í steypibaði

 

Framkvæmdir hófust á því að Ólafur sendi tvo menn í  Djúpavíkur í Reykjafirði að sækja síldarvagna. Þetta voru Gísli Guðlaugsson Steinstúni og Sveinn Guðmundsson Birgisvík. Þeir drógu vagnana með miklum erfiðismunum upp úr Reykjafirði yfir Tagl og niður í Ingólfsfjörð. Grjót var tekið úr hlíðinni og ekið í fyrrgreindum  vögnunum og úr því hlaðinn kantur 119 metra langur í stórstraums fjöruborði. Síðan var fyllt upp innan við hann. Þetta er gríðarlega mikið mannvirki enn í dag. Plönin voru síðan römmuð niður utan við kantinn.

Löndunarbryggjur voru tvær vestan til við hleðsluna. Þriðja og stærsta bryggjan var nokkru austar og þar fór upp og útskipun fram. Íveruhúsið var norskt timburhús sem Björn Ólsen Matthíasson hafði upphaflega reist á Patreksfirði 1906-7 og var þar  kallað Babylon vegna stærðar sinnar. Björn Ólsen lenti í þroti og Pétur A Ólafsson eignaðist húsið. Þar var það tekið niður spýtu fyrir spýtu, flutt á Ingólfsfjörð og sett upp á hól ofan og austan við stöðina 1918. Húsið var 9,10x10,2 m eða tæpir 93 fermetrar, tvær hæðir og ris. Stöðvarhús var byggt ofan við plönin sem hýsti verkfæri og galla starfsfólks.

 

„Magnús Sigurðsson „gullskemmtilegur“ maður kenndur við Skuld í Hafnarfirði var skipstjóri á Mb. Venus“. „En um vorið (1918) bað Magnús mig að koma með sér norður á Ingólfsfjörð og vinna hjá sér og félögum sínum sem beykir um sumarið“. „Á Ingólfsfirði var langt og mikið sjóhús, mannabústaður og geymsla og þar var mér búinn staður, bæði vistarvera til að sofa í og svo vinnustaður“. „Margt var af ungu fólki á Ingólfsfirði þetta sumar og flest frá Vestfjörðum. „Það væri synd að segja að mannskapurinn fúll eða fyrtinn“. „Þegar söltun lauk var ég beðinn að vinna lengur við pæklun. Ég gerði það“. (Nói bátasmiður. Skráð Erlingur Davíðsson. Prentsm. Odds Björnssonar 1978)

 

Kristján Nói Kristjánsson (1896-1982) varð síðar landskunnur sem „Nói bátasmiður“ og fyrir kúnstug orðatilæki. Hann var fæddur og uppalinn við Dýrafjörð en starfaði lengst af á Akureyri.

Kleifastöðin í byggingu. Kuldaél er yfir og snjóföl á jörð. Löndunarbryggjurnar tvær eru komnar en hvorki plönin né hafskipabryggjan. Á myndinni  má einnig sjá kamar í forgrunni, stöðvarhúsið og fólk að störfum. Norðmannahúsið á Eyri ber yfir bugspjót bátsins við bryggjuna. Mynd PAÓ.

Frá Hólmavík var oss símað 25. júlí að frá Ingólfsfirði stunduðu 10 skip síldveiðar, frá þrem stöðvum. Fyrsta síldin kom á land þann dag. Voru það skipin Guðrún með 260 tunnur og gufuskipið Herlöf með 400 tunnur. Eru þau bæði frá stöð Óskars Halldórssonar. Ennfremur kom Reaper með 300 tunnur og Svalan með 320 tunnur, en þau skip á P.A. Ólafsson konsúll. Síldin er „stór og feit“ segir í skeytinu, og „veður hið besta“ (segir Morgunblaðið 26. júlí1919)

 

Ingólfsfirði sunnudag 29.07.1919

Svala kom inn í gær með 225 tunnur af síld, Reaper með 240 tunnur. Í dag kom Leo með 185 tunnur, Reaper með 400 tunnur, Venus með 380 tunnur, Herlöf með 375 tunnur og Guðrún með 700 tunnur. Guðrún gat ekki tekið meira, var alveg sökkhlaðin og eins hefur það áður verið með hana, Svöluna og Venus að þær hafa hálfyllt önnur skip úr sama kastinu.     (Morgunblaðið 30. júlí 1919) Sleppa??

 

Kleifastöðin Hafskipabryggjan í smíðum. Mikið magn af uppsöltuðum tunnum er á stöðinni. Tunnurnar eru í aðgreindum stæðum og í eigu margar aðila. Stærsti báturinn er líklega Mótorkútter. Reaper  GK-1. Mynd PAÓ.

 

Kleifastöðin var stór og þar var  saltað í miklu magni fyrir marga aðila auk eigenda. Af myndum má ráða að þeir hafi verið minnts að kosti 11. Nöfn flestra vantar. Mótorkútter Reaper GK 1  í eigu PAÓ og fleiri aðila, lagði upp á Kleifastöð. Reaper var 48 brúttólestir, stærsti og aflahæsti báturinn. M.B Venus GK 468,  25 lesta bátur sem Ólafur Guðmundsson átti með fleirum aflaði vel og lagði þar upp ásamt  fleiri ónefndum bátum.  Samkvæmt hreppsbókum Árneshrepps var saltað í 6.220 tunnur á Kleifastöðinni sumarið 1919 og skattur stöðvarinnar var 200 kr. (Skjöl Árneshrepps)

                                                                                                                                                                                                

„Á Ingólfsfirði höfðu  veiðst 10.000 tunnur 1.ágúst, allt síðustu vikuna í júlí. Allur aflinn tekinn milli    Horns og Geirhólma. Flest skip hætt veiðum vegna tunnuleysis“… Morgunblaðið  4.8.1919.

 

 „Framleiðslukostnaður  á þessum tíma var 65-70 aurar per kg en almennt gangverð á mörkuðum var 95 aurar per kg  sem var góður arður. Ýmsar  óraunhæfar fréttir urðu til þess að skapa væntingar  um 1.05-1.10 fyrir kílóið“. (Dagbækur PAÓ)

 

 

 

Flutningaskip við hafskipabryggju Kleifastöðvar. Líklega Irma. Unnið að útskipun í fremri lest.

Mynd: PAÓ.

 

 

 

Lokið útskipun í framlest og hafin útskipun í aftari lest Irmu. Irma kom frá Englandi með kol og tunnur og tók  síld. Irma var á vegum Lúðvíks Hafliðason kaupmans Vesturgötu 11 Reykjavík.

Mynd: PAÓ.

 

Um 5000 tunnur frá ýmsum aðilum voru eftir á planinu um haustið. Sænskt flutningaskip kom til Ingólfsfjarðar um mánaðarmót ágúst /september og gerði skipstjóri þess tilboð  í 3.500 tunnur  á 85 aura kílóið.  Ólafur hafði samband við tvo stærstu eigendur síldarinnar  ma. PAÓ sem átti 2.000 tunnur. Þeir höfnuðu því og kváðust hafa betri verð. Þetta varð síðasta tilboðið og því fór sem fór. Ólafur tók hins vegar ákvörðun um að selja sína síld og þær 900 tunnur sem MB Venus átti og einnig nokkrir smærri eigendur. Þessir aðilar fengu greitt í gullpeningum og stóðu nokkuð vel á eftir. Evrópa var í sárum eftir styrjöldina 1914-1918  og kaupgeta lítil. Norðmenn höfðu veitt vel og fylltu markaðinn meðan Íslendingar héldu að sér höndum í von um hærra verð. Menn héldu í vonina um  að hægt yrði að selja síldina og halda starfseminni áfram.  Sú von dofnaði með hverju árinu. Verðfallið og kreppan sem skall á eftir stríðið  haustið 1919 var kölluð “Krakkið” stöðvaði þessa annars öflugu starfsemi á Kleifastöð. (Gunnar og Ingólfur á Eyri)

 

Í dagbókum PAÓ segir um Kleifastöð

„Frá ágúst lokum eða september byrjun, þegar síld á afskekktum stöðum var tilbúin, var þrátt fyrir margítrekaðar sölutilraunir var ekki hægt að fá fast tilboð. Umboðsmenn ytra hvöttu aftur á móti til að senda síldina út óselda, með því að kaupendur vildu skoða hana áður en kaupin færu fram, en gátu þess jafnframt, bæði í bréfum og símskeytum að minnsta kosti til septemberloka, að vænta mætti að fá fyrir hana 1.05-1.10 kr. per kíló. Ingólfsfjarðarsíld, Kleifastöðvar og Reaper Co nam um 5.000 tunnum. Framleiðslukostnaður hennar var almenntum  65-70 aurar pr. kíló.

Ég skal þó geta þess, að um miðjan september átti ég kost á að selja 2.000 tunnur fyrir 85 aura kílóið, en hafnaði því boði.— Sumpart vegna þess að þetta var langt undir því verði sem talið var að fengist fyrir síldina ytra. Almennt gangverð hér heima til þess tíma var 95 aurar per kíló“.

 

Pétur telur sig hafa tapað í hruninu mikla 1919 um 500.000 krónum á síldveiðum og söltun og mest á Kleifastöðinni. (Dagbækur PAÓ)

Síld frá haustinu áður 1918 var geymd á stöðinni yfir veturinn. Jón Guðmundsson á      Seljanesi (Jón Gamli) eldri hálfbróðir Ólafs átti að sjá um að pækla tunnurnar. Um vorið komu kaupendur og þá var slegin upp tunna til að skoða innihaldið. Kom þá í ljós að pækil vantaði í tunnuna. Þá sagði    Jón  gamli. “Ég vissi að það vantaði á eina”.

 

Jón Guðmundsson (Jón Litli) yngsti bróðir Ólafs hóf sinn búskap með Valfríði Guðmundsdóttur (frá Heimaskaga á Akranesi) í húsinu á Kleifastöðinni veturinn 1919-20. Hann átti jafnframt að sjá um óseldu  síldina, það er velta tunnunum til og pækla.  (Gunnar á Eyri)

 

Sumarið 1922 voru bryggjur og plön rifin og efnið selt til Ísafjarðar. Húsið var tekið niður, selt til Reykjavíkur og reist við Laugaveg 86 það sama ár 1922. Þar stóð það í 79 ár til ársins 2003 að það er flutt í heilu lagi vestur á  Aflagranda 4,  í  Reykjavík.

 

Í þinglýsingabók kemur fram að Zimsen konsúll og P. Ólafsson í Reykjavík kaupa „timbur íbúðarhús“ sem stóð á svokallaðri „Kleifa-síldveiðistöð á Ingólfsfirði. Húsið var selt eins og það stóð á Ingólfsfirði með öllu múr og naglföstu“ af Ólafi Guðmundssyni og Helga Jónssyni. Sá samningur var dagsettur 27. janúar 1922.

Laugavegur 86, Reykjavík.                                       Álagrandi 4, Reykjavík, í júlí 2010.                   

Ljósm.: Gagnasafn Húsafriðunarnefndar                Ljósm. Guðlaug Vilbogadóttir.    

 

Söluverði var ráðstafað  upp  skuldir stöðvarinnar. Eftir stóðu all miklar sjálfskuldaábyrgðir  sem féllu á eigendur.

 

Leiðréttingar og viðbætur vel þegnar

Ásgeir Gunnar Jónsson

 

Heimildir:
 

  1. Dagbækur PAÓ Pétur átti fjórðung í Kleifastöðinni og lagði mikið til umfram hlutareign auk sjálfskuldarábyrgðar á bankalánum.

  2. Íslensk skip Mk. Reaper GK 1 var 48 brl. Smíðaður í Englandi 1883

  3. Mb. Venus var 25,6 brl. smíðaður í Danmörku 1909

  4. Munnlegar heimildir: Gunnar Guðjónsson Eyri

  5. Munnlegar heimildir: Ólafur Gunnarsson sonarsonur Ólafs A. Guðmundssonar.

  6. Innmælingar og yfirlitsteikning dags. 20.10.2014 Ásgeir Gunnar Jónsson

Teigastöðin

     Forsagan er sú sem fyrr segir að mikið kapphlaup varð um síldarstöðvarlóðir við Ingólfsfjörð 1915 og næstu ár. Búið er að leigja allt Eyrarlandið innan við  Ána 1917. Ólafur Guðmundsson tók á leigu eina stóra lóð í landi Eyrar sem hann notaði sjálfur undir Kleifastöðina með sínum þáverandi viðskiptafélögum. Hann tók einnig á leigu lóðir í landi Munaðarness og Ingólfsfjarðar.  Hann endurleigði báðar Munaðarneslóðirnar og lóðina undir Teigastöðina.

     Stöðin var byggð við Teiganes, norðanvert Ingólfsfjörð í landi samnefnds bæjar.  Þar er undirlendi ekkert en stutt út í marbakkan og því auðvelt að gera hafnarmannvirki.  Þarna er líka gott skjól fyrir norðlægum áttum. (Sjá nánar Teigastöðin bls.??)

     Í samningi um afsal lóðarréttinda sem gerður var í Reykjavík þann 27. desember 1919 segir m.a.:  Bjarni Ólafsson, skipstjóri Akranesi, Ólafur B. Björnsson, kaupmaður Akranesi og Halldór Jónsson (Dóri frá Bóli var mágur Ólafs Guðmundssonar) útgerðarmaður í Reykjavík annarsvegar og Ólafur Guðmundsson frá Ingólfsfirði hins vegar gjöra með sér svohljóðandi samning:

 

  1. Ólafur Guðmundsson selur þeim Bj. Ól., Ól. B. Bj. og H. J. lóðarréttindi í Ingólfsfirði í Strandasýslu.

  2. Grunnurinn er í landi þjóðjarðarinnar Ingólfsfjörður og liggur fyrir innan svonefnt Teiganes í Ingólfsfirði.

  3. Stærð grunnsins er 60-sextíu-faðmar meðfram sjó, frá Teiganesinu sem er ytri takmörkin og inn með firðinum og verða innri takmörk grunnsins lóð F.f. Dröfn frá Hafnarfirði.  Breidd lóðarinnar er 4-fjórir- faðmar, talið frá stórstraumsflóðfari og á land upp.

  4. Með samningi þessum afsalar Ólafur sér allra réttinda og umráða fyrir þessari lóð og öðlast þeir Bjarni Ólafsson og félagar um leið allra þeirra réttinda sem Ólafur hefur haft til að starfrækja og notfæra sér lóðina eftir nánari fyrirmælum Sýslumannsins í Strandasýslu.  Bjarni Ólafsson ofl. takast jafnframt á hendur allar þær skyldur sem fylgja frá fyrstu hendi lóðarréttindum þessum, frá hálfu hins opinbera, greiði árlega af henni hið ákveðna gjald skv. taxta sem Landssjóður hefir ákveðið Ólafi að greiða, sér um vegalagningu fyrir ofan lóðina ef með þarf o.s.frv.

  5. Fyrir afsal lóðarréttindanna greiðir Bjarni Ólafsson og félagar Ólafi Guðmundssyni kr. 10.000.oo-tíu þúsund krónur-, sem greiðist þannig: Kr. 5.000.oo-fimm þúsund krónur- við undirskrift samnings þessa, kr. 2.500-tvö þúsund og fimm hundruð krónur- h. 1. sept. 1920 og kr. 2.500.oo-tvö þúsund og fimm hundruð krónur h. 1. maí 1921. (Skjöl Ól. B. Bj.  )

     Viku síðar, eða 3. janúar 1920, gera sömu aðilar með sér annan samning þar sem fram kemur að Ólafur Guðmundsson taki að sér að gjöra grjótuppfyllingu á lóð þeirri sem hann hefur gefið þeim félögum afsal fyrir (sjá að ofan).  Lengd uppfyllingarinnar skal vera meðfram sjó 30 –þrjátíu- faðmar og á breidd 10 –tíu- faðmar eða fram á stórstraums útfjar. (Skjöl Ól. B. Bj.)

     Ólafur sér um að hlaðinn verði grjótgarður niður fjöruna, sem nær fram á stórstraums útfjar og meðfram  fjörunni 30 –þrjátíu- faðma langur garður og skal sú HLEÐSLA vera eins traust og vandlega af hendi leyst og venja er til um slíkar grjóthleðslur hér á landi, þ.e. uppfyllingar með líku fyrirkomulagi og hér er átt við.  Ólafur sér ennfremur um að hafa garðinn og uppfyllinguna á 8 faðma breiðu og 30 faðma löngu svæði og gjöra það með góðu og hentugu upplagningsplássi fyrir síldartunnur ásamt þeirri uppfyllingu sem að ofan getur og koma á fram í fjöruna, gjöra það samfellt og slétt land, þannig að hann skili sléttum grunnfleti að stærð 30x18 föðmum eða 540 fer föðmum sem að dómi óvilhallra manna sem vit hafa á sé gott síldarupplagningspláss. (Skjöl Ól. B. Bj.)

 

     Fyrir þetta verk greiða þeir félagar Ólafi kr. 20.000.-tuttugu þúsund krónur- og skal upphæðin greiðast þannig: kr. 5.000.- hinn 1. apríl 1920 eða fyrr ef Ólafur kynni að fara norður fyrr og ef hann af nauðsynlegum ástæðum skyldi þurfa að byrja fyrr á verkinu, kr. 5.000 greiðast 1. maí 1920 og kr. 5.000.- greiðast 1. júní 1920, en eftir verandi kr. 5.000.- greiðast þegar verkinu er lokið, sem skv. samningi þessum skal vera 15. júlí n.k. ef óviðráðanleg atvik svo sem ísalög eða annað því um líkt ekki hamla framkvæmdum.  Þarna segir enn fremur að Ólafur skuldbindi sig til að selja þeim félögum hæfilega marga staura eða stólpa undir 30 feta breiða og 100 feta langa timbur platningu, sem ráðgert er að verði byggð n.k. vor fyrir framan ofangreinda grjótuppfyllingu. (Skjöl Ól. B. Bj.)

 

     Þarna segir að staurar þessir skuli vera hæfilega langir og að öðru leyti fullgildir til þessarar notkunar.  Fyrir hvert fet í þessum staurum greiði þeir félagar Ólafi kr. 1.75 (eina krónu og sjötíu og fimm aura), sem greiðist eftir samkomulagi, þó ekki síðar en 30. sept. 1920.  Ólafur sér um að ramma niður staurana í ofangreinda timbur platning samhliða grjótuppfyllingunni og einnig um að grafa grunn undir hús að stærð ca. 8 x 14 álnir, sem ráðgert er að verði byggt á eða nálægt þessari lóð n.k. vor.  Skal endurgjald fyrir það verk vera innifalið í hinum ofangreindu kr. 20.000.oo-tuttugu þús.kr.  Úttekt á mannvirki því, sem að ofan getur skal fara fram af 3. óvilhöllum mönnum sem sýslumaður eða hreppsstjóri útnefnir ef aðilar sjálfir ekki geta orðið ásáttir. (Skjöl Ól. B. Bj.)

 

     Eins og áður kom fram þá voru aðstandendur stöðvarinnar Akurnesingarnir Bjarni Ólafsson, skipstjóri og hálfbróðir hans Ólafur B. Björnsson, kaupmaður, báðir frá Litla-Teigi, Halldór Jónsson, útgerðarmaður frá Aðalbóli og einnig Þórður Ásmundsson, (bættist við síðar?) útgerðarmaður frá Háteig, en allir þessir menn voru ýmist skyldir eða tengdir.  Stöðin mun upphaflega verið byggð vorið 1918, og þá líklega í félagi við Ólaf Guðmundsson.  Sagt var að húsaviður og dekk á plan hafi verið flutt frá Noregi á barki sem dreginn var af vélskipi. (Gunnar á Eyri)

 

     Bjarni var með Hrafn Sveinbjarnarson MB 85, 20 lesta bát á síld og landaði þarna enda stutt að fara rétt út úr firðinum og menn tví og þrí hlóðu að sögn.  Mjög líklega landaði þarna einnig báturinn Valborg MB 93 (síðar Hrefna AK 93), sem var smíðuð í Danmörku árið 1917, 36 brl.  Báturinn var fyrst í eigu Halldórs Jónssonar frá Aðalbóli og fleiri, en síðar í eigu mágs hans Þórðar Ásmundssonar, sem átti einnig hlut í Teigastöðinni.  Snemma fylgdust Akurnesingar með norður til síldveiða.  Þar reið Bjarni Ólafsson fyrstur á vaðið 1916, er hann fór norður á v.b. Hrafni Sveinbjarnarsyni.  Alla tíð síðan stundaði Bjarni síldveiðar fyrir Norðurlandi, á Ólafi Bjarnasyni eldra og yngra, og var þar jafnan með hæstu skipum.  Fljótlega sendu Þórður Ásmundsson, Sigurður Hallbjarnarson og Þorkell Halldórsson báta sína að staðaldri norður til síldveiða, en sjaldnast voru að því mikil uppgrip.  Nokkuð löngu síðar, eða eftir 1927 fór Haraldur Böðvarsson að senda sína báta til síldveiða fyrir Norðurlandi. (Skessuhorn  Ásmundur Ólafsson)

 

     Eins og áður sagði byggir Ólafur Guðmundsson, árin 1918 og 1919, söltunnarstöð á Ingólfsfirði fyrir Bjarna Ólafsson & Co, Þórð Ásmundsson og Halldór Jónsson.  Söltuðu Akurnesingar þarna nokkuð.  Stöð þessi var samt ekki lengi starfrækt, því að nóg voru vandkvæðin og erfiðleikarnir að glíma við á þessum árum („Krakkið“ 1919).  Ekki var þó tapið meira en það, að hver aðili mun hafa fengið til baka nokkurn vegin það, sem hann lagði í fyrirtækið.  Eftir þetta  fluttu menn þessir starfsemi sína til Siglufjarðar, sem þá fór að verða aðal söltunnarstaðurinn á Norðurlandi. (Ásmundur Ólafsson)

 

     Nafnið Teigastöðin er líklega tilkomin vegna staðsetningarinna, þ.e. fyrir innan svonefnt Teiganes.  Ekki hefur Akurnesingum líkað það nafn illa, vegna þess að þeir voru flestir ættaðir af hinum svokölluðu Teigum á Akranesi,  Bjarni og Ólafur frá Litla-Teig og Þórður frá Háteig.

     Á þessum tíma eru fimm til sex söltunnarstöðvar reknar við Ingólfsfjörð og eitthvað í Djúpavík.  Íbúar í Árneshreppi eru með því flesta sem varð eða 523, en margt fólk hefur þurft að flytja að í allan þennan rekstur.  Þessi mikla uppbygging í kringum síldina í Árneshreppi verður vorið eftir mikinn harðindavetur, sem kallaður var frostaveturinn mikli.

 

     Það er af stöðvarhúsinu að segja að Jón Gamli Guðmundsson frá Eyri og Solveig Benjamínsdóttir bjuggu í því í nokkur ár.  Húsið var síðan tekið niður og flutt að Finnbogastöðum og gert að barnaskóla fyrir Árneshrepp.  Eftir stendur hleðslan innan við planið, grunnur undan íveruhúsi og tóftir útihúsa Jóns og Sólveigar.

 

Fréttablaðið 20.09.2019.

„Ég var tæpra tveggja ára (1921) þegar for­eldrar mínir fluttu inn í botn Ingólfs­fjarðar, þar vorum við í tvö ár, þá losnaði hús­næði á svo­kölluðum Teigum, út með firðinum vestan­verðum, beint á móti Eyri, þar var stórt og mikið timbur­hús. Pabbi var ekki með neitt jarð­næði en við fengum að búa í þessum bragga í fjögur ár, þá var húsið rifið niður og byggt upp í Tré­kyllis­vík sem barna­skóli og heima­vist“.

                                                                                                Hulda Jónsdóttir frá Seljanesi.

 

 

 

 

Mynd 1. Grjótgarðurinn sem getið er um í samningnum og uppfyllingin innan við hann stendur að mestu enn vorið 2014. Handan fjarðar sést til Eyrar. Mynd:  Ágj.

 

 

 

 

Mynd 2. Teigastöðin. Hleðslan  er vel sýnileg enn vorið 2014. Mynd: Ágj

 

 

 

Mynd 3. Horft út fjörðinn hleðslan með fjörunni í forgrunni. Mynd: Ágj.

 

Örlög Teigastöðvarhússins, frétt í Vísir 28. febrúar. 1933.                                                              Heimavistarskóli brennur.

„Skólahúsið á Finnbogastöðum i Árneshreppi brann til kaldra kola kl. 1—2 í nótt. Í skólanum voru heimavistir. Húsið var 10x18 álnir, 1 hæð, port byggt með risi. Fimm fullorðnir bjuggu í húsinu og eitt barn, en 10 börn sváfu uppi og einn karlmaður var hjá þeim. Eitt barnanna, 8 ára að aldri vaknaði við reykjarsvæluna, sem hafði breiðst út um allt húsið, sem var á hröðum vegi að verða alelda. Var sængum vafið um börnin og þau borin í útihús og mátti ekki tæpara standa um björgun þeirra. Húsið var vátryggt, en innanstokksmunir ekki. Það var byggt fyrir 2 árum og eign Guðmundar Þ. Guðmundssonar skólastjóra“. F.B.

                                                              

Samantekið  ma. gögn frá  Ásmundi Ólafssyni Akranesi. Ágj léði Ásmundi Ólafssyni heimildir um Teigastöðina í grein sem hann byrti í Skessuhorni. Ásmundur gat ekki þeirra heimilda.

                                             Ásgeir Gunnar Jónsson  2009                     

 

 

     Sumarið 1919 var síldveiðimönnum gjöfult en saltendum við Ingólfsfjörð og víðar varð það erfitt en um leið lærdómsríkt. Síldveiði og söltun aðal fréttaefnið enda mikið í húfi.

 

Frá Hólmavík var oss símað 25. júlí að frá Ingólfsfirði stunduðu 10 skip síldveiðar, frá þrem stöðvum. Fyrsta síldin kom á land þann dag. Voru það skipin Guðrún með 260 tunnur og gufuskipið Herlöf með 400 tunnur. Eru þau bæði frá stöð Óskars Halldórssonar. Ennfremur kom Reaper með 300 tunnur og Svalan með 320 tunnur, en þau skip á P.A. Ólafsson konsúll. Síldin er „stór og feit“ segir í skeytinu, og „veður hið besta“ (segir Morgunblaðið 26. júlí1919)

 

Ingólfsfirði sunnudag 29.07.1919

Svala kom inn í gær með 225 tunnur af síld, Reaper með 240 tunnur. Í dag kom Leo með 185 tunnur, Reaper með 400 tunnur, Venus með 380 tunnur, Herlöf með 375 tunnur og Guðrún með 700 tunnur. Guðrún gat ekki tekið meira, var alveg sökkhlaðin og eins hefur það áður verið með hana, Svöluna og Venus að þær hafa hálfyllt önnur skip úr sama kastinu.     (Morgunblaðið 30. júlí 1919) Sleppa

 

 

 Thorsteinssonstöðin.

     Th. Thorsteisson (Þorstein Þorsteinsson)  fékk útmældar  lóðir á Eyri 1919 og flutti þangað stöð sem hann hafði starfrækt á Hjalteyri við Eyjafjörð. Th. gerði tvær vandaðar bryggjur, og plan með stöðvarhúsi ofan þeirra

Th. Thorsteinsson bragginn sem enn stendur 2014 kom frá Hjalteyri ásamt stöðvarhúsi og plani. Þessi stöð var starfrækt af ýmsum aðilum fram til 1950. Rekstraraðilar voru fyrst Th. Thorsteinsson og samhliða þáverandi viðskiptafélagar hans þeir Óskar Halldórsson og Garðar Gíslason. Stöðin virðist vera lítið eða ónotuð í allmörg ár en  Ólafur Guðmundsson rekur hana 1932-35 þá taka við Egill Ragnars og Karvel Jónsson og síðast Björgvin Bjarnason frá 1942 til 1950. Eftir það hefur ekki verið söltuð síld á Ingólfsfirði.

 

Hansína Guðmundsdóttir frá Akranesi starfaði við síldarsöltun hjá Ólafi Guðmundssyni sumarið 1933. Hún tók nokkuð af góðum myndum af staðnum og starfseminni sem hér byrtast.

 

      Thorsteinssonbraggi á Eyri við Ingólfsfjörð var kenndur við Th. Thorsteinsson               (Þorstein Þorsteinsson) útgerðarmann og  kaupmann í versluninni Liverpool Reykjavík. Hann gerði út togara, var með fiskvinnslu og  rak  síldarplön á Hjalteyri, Siglufirði og Ingólfsfirði.

 

    Th. Thorsteinsson (1856 - 1924)

 

     Thorsteinssonbraggi hafði nokkur auka nöfn gegnum tíðina: Svartibraggi, Draugabraggi, Kvennabraggi eða bara Th. bragginn.  Á Eyri stóð bragginn á háum  steyptum  kjallara, hæð og  ris 88,5 fermetrar að grunnfleti. Thorsteissonbraggi var hefðbundið bindingsverks timburhús með háu risi, krosspósta gluggum eins og flest hús við upphaf tuttugustu aldar. Að utan voru þrjár hliðar lagðar vatnsklæðningu en austurgafl var með lóðréttri timburklæðningu og pappalagður. Húsið var óeinangrað en allt þyljað að innan með kúlupanel bæði  loft og  veggir.  Notkun Th. braggans var lítilsháttar breytileg gegnum tíðina en fyrst og fremst var þetta „braggi“. Um tíma við upphaf  framkvæmda við  verksmiðju Ingólfs h/f var  rekið  mötuneyti í honum. Inngangar voru þrír. Einn um kjallara og þaðan stigar upp báðar hæðir. Tveir inngangar voru úr suðri inn á hæð. Í  lokin  var innri skipan með eftirfarandi hætti. Í kjallara var frystir,  fittingslager, geymslur, þvottahús og klósett. Á  hæð voru  sex íbúðarherbergi  tvö andyri og stigagangur. Í  risi voru fimm herbergi, stigagangur og eldhús. Thorsteinssonbraggi var upphaflega reistur á Hjalteyri við Eyjafjörð (1913) .

 

 „Ekki er vitað um uppruna hússins á Hjalteyri, en geta má sér þess til að þar hafi húsið einnig verið reist í tengslum við síldarverkun. Sé það raunin berast böndin að Þorsteini Þorsteinssyni og fyrirtæki hans, Braga hf., sem hóf rekstur söltunnarstöðvar á Hjalteyri um 1913 og byggði söltunarbryggjur, geymsluhús og stórt og mikið hús innan við Stekkjarvík, „en hún er lítil vík utan við norðurenda grandans er skilur að sjóinn og Hjalteyrartjörnina.“.(Guðlaug Vilbogadóttir: Með hús í farangrinum maí 2011)

 

     Veturinn 1917-1918 er á Íslandi kallaður „Frostaveturinn mikli“, en þá gerði mikla kuldatíð. Í janúar 1918 fór frost víða á landinu niður fyrir -30°C. Hafís varð víða landfastur og rak hann talsvert suður fyrir land og lokaði siglingaleiðum fram í febrúar.

 

„Árið 1918 varð útgerðarmönnum á Hjalteyri þungt í skauti. Hafís lagðist inn fjörðinn og braut allar bryggjur á grandanum á leiðinni inn fjörðinn. Ekki var það nóg, heldur tók ísinn einnig hinar bryggjurnar, er voru sunnan á Hjalteyrinni á útleiðinni, og braut allt í spón. Var þá öllum umsvifum Braga hf. á Hjalteyri hætt, húsið rifið og flutt og eftir stóð svonefndur Thorsteinssongrunnur.“ (Guðlaug Vilbogadóttir: Með hús í farangrinum maí 2011)

 

 

Bryggjur og plön Th. Thorsteinsson. Rauðiskúrinn danshús og stöðvarhús Th. Thorsteinsson í forgrunni, seinna sjávarhús Eyrarbræðra. Mynd: Hansína Guðmundsdóttir

 

Th. fær síðan  viðbótar lóð 2. júlí sama ár og á þá lóð var  Thorsteinssonbraggi  sett niður .

 

 

 

     Th. Thorsteinsson (Þorsteinn Þorsteinsson) var umsvifamikill á sinni tíð: Hann rak verslunina Liverpúl í Reykjavík og setti ma. upp  fiskverkunarstöð á Ytri-Kirkjusandi aldamótárið 1900. Hann kom upp og rak síðdarstöð á Hjalteyri við Eyjafjörð. Th. Thorsteinsson varð fyrir miklu tjóni af völdum hafíss á hafnarmannvirkjum við Hjalteyri veturinn 1918. Árið eftir 1919 flutti  hann bæði íbúðabragga, stöðvarhús  og  það sem  eftir var af bryggjuvið  frá Hjalteyri við Eyjafjörð vestur á Eyri við Ingólfsfjörð. Ekki virðist Th. Thorsteinsson hafa rekið stöðina að öllu leiti sjálfur en leigt hana strax þeim félögum Óskari Halldórssyni umsvifamiklum síldarspekúlant og Garðari Gíslasyni kaupmanni í Reykjavík.

 

Sumarið 1919 lenti ég í síldarsöltun á Ingólfsfirði og var planformaður sem kallað var hjá Óskari Halldórssyni. Já sei sei það er margt talað um framferði ungafólksins í dag, en þá kemur mér jafnan í hug Ingólfsfjörður, þar gat nú sitthvað gerst í þá daga. (Síldarárin (HH)

 

Varla hefur Th. Thorsteinsson hagnast á þeim viðskiptum því um haustið varð mikið verðfall á síld og saltendur urðu fyrir miklu fjárhagslegu tjóni. Í kjölfarið lagðist síldarsöltun að  mestu af  við Ingólfsfjörð. Stöðin var ítrekað auglýst til leigu á árunum upp úr 1920. Árið 1932 tekur Ólafur Guðmundsson Thorsteinsson stöðina á leigu og rekur til hausts 1935. Á þeim tíma bjó Ólafur  í Thorsteinsson bragganum  með sitt starfsfólk.  

 

„Það bjuggu allir í Thorsteinsson bragga  sumarið 1935. Þar voru um 50 rúm. Vestan við húsið voru tveir útikamrar. Við sváfum tvær í hverju rúmi. Elduðum sjálfar og fengum að þvo á Eyri. Þar var viðarkynntur  útiþvottapottur við bæjarlækinn. Það var dansað á hverju kvöldi í stöðvarskúrnum (Rauði skúrinn) við munnhörpuundirleik. Ógleymanlegur tími“. ( Sigfríður Georgsdóttir úr Garði. Ágj. viðtal júlí 2014)

 

    En árið 1936  eignuðust þeir Egill Ragnars á Siglufirði og Karvel Jónsson á Ísafirði Thorsteisson stöðina og þar með Thorsteisson braggan. Þeir ráku stöðina til 1942 og á ýmsu gekk sem fyrr.

 

„Við vorum nokkrir Þingeyringar  í síld hjá Agli og Karvel sumarið 1936.

Bjuggum í Thorsteinssonbragganum,  sváfum tvær í hverju rúmi og elduðum sjálfar fyrir okkur til skiptis.  Það var lítil veiði og lítil þénusta - rétt fyrir nauðsynjum. Um haustið fengum við far í lest síldarbáts til Ísafjarðar og gengum þaðan til Þingeyrar peningalaus eftir minnisstætt og skemmtilegt sumar“ .

(Í síld á Ingólfsfirði 1936 Kristín Þorvaldsdóttir frá Þingeyri. Ágj. viðtal haustið 2000)

 

     Af þessum upplýsingum má sjá að Thorsteinsson bragginn hefur hýst upp undir hundrað síldarstúlkur þegar mest var.

    

     Guðjón Guðmundsson tók kjallara Thorsteinsson braggans  á leigu 1920 og hóf þar verslunarrekstur  sem stóð til 1936. Hann missir þá aðstöðu þegar Egill Ragnars og Karvel Jónsson eignast Thorsteinsson braggan.

 

     Í ágúst 1936 fær Óskar Halldórsson útmælda rúmlega 9000 fermetra lóð úr landi Eyrar. Lóðarréttindin framseldi hann í nóvember sama ár til Geirs Thorsteinssonar með því skilyrði að þar risi síldarverksmiðja. Þetta munu vera þær fjórar lóðir sem Th. Thorsteinsson fékk úthlutað 1919. Þeim var upphaflega úthlutað 1916 til  20 ára og leigutími því útrunninn að hluta. Leiða má líkur að því að Óskar hafi þarna sett gaffal eigendur á eigendur húsa og hafnarmannvirkja á umræddum lóðunum.?

 

     Ingólfur h/f  kaupir Thorsteinsson stöðina af  Agli Ragnars og Karvel Jónssyni 17.02.1942 og þar  með Thorsteinsson braggan. Ingólfur h/f  gerir  í kjölfarið leigusamning við Björgvin Bjarnason á Ísafirði sem rekur stöðina til 1952. Eftir það var lítið búið í Thorsteinsson bragga. Síðast héldu þar til menn sem unnu við viðhald á bryggjunum Ingólfs h/f 1958.

 

     Ingólfur Guðjónsson á Eyri eignaðist húsið við sölu eigna Ingólfs h/f 1978. Húsinu hafði lítið verið haldið við og ekkert eftir það. Það grotnaði niður og erfingjar Ingólfs Guðjónssonar brenndu það vorið 2014.

 

     Húsafriðunarnefnd lét mæla Thorsteinsson braggan upp og teikna í júlí 2012. Verkefnið er í gagnasafni  nefndarinnar merkt: Síldarverksmiðjan Ingólfsfirði, verknr. 2584.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Thorsteinssonbragginn 2012 Elsta og sögufrægasta húsið á Eyri sem hýsti um 100 síldarstúlkur.

 

 

 

Íbúðarherbergi á efri hæð

 

 

 

Íbúðarherbergi á efri hæð.

 

 

 

Eldavélin og vaskurinn.

 

 

 

Eldavélin var frístandandi í holi á efri hæðinni

 

 

 

Frystiklefinn í kjallaranum.

 

 

 

Fittingslagerinn og seinni tíma dót.

 

 

Skrifað 2014

Myndir Ágj

Heimildir: Guðlaug Vilbogadóttir: Með hús í farangrinum maí 2011

Gunnar Guðjónson Eyri

Ingólfur Guðjónsson Eyri

Kristín Þorvaldsdóttir frá Þingeyri

Sigfríður Georgsdóttit  úr Garði

 

 

Ólafur Guðmundsson

     Ólafur tekur síldartöð Th. Thorsteinssonar á leigu 1932 og rekur til 1935 er aðrir aðilar tóku við henni. Ólafur sótti um land austan við Thorsteinsson lóðina það er lóð þá er Bræðurnir Einarsson höfðu fengið 1916 og Peter Skarbölle hafði byggt á bryggju, plan og hús (sjá Norðmannahúsið á Eyri). Ólafur fékk lóðina stækkaða  og hóf þar miklar framkvæmdir. Fyrsta verkð var að koma upp vélknúinni sögun sem sett var niður í Kríuvarpinu (Sjá Fyrsta vélsögun á Ströndum. Strandapósturinn 35. árgangur 2003) Ólafur keypti rekavið af bændum og hóf sögun á viði í bryggjur plön og hús. Ólafur kom síðar að stofnun Sögunar h/f og stofnun og rekstri rækjuverksmiðju á Eyri.

Yfirsmiður við þessar framkvæmdir var Sigurjón Sigurðsson og með honum var Skúli Jónsson báðir Borgfirðingar. Auk þeirra var Jónas Kristjánsson úr Reykjafirði. Byggðar voru tvær bryggjur og plan ofanvið þær. Síðan var Bragginn reistur en í neðri hæð hanns var fyrirhugað að verka matjessíld sem geyma þurfti inni sem þó varð ekki af. Efri hæðin var fyrir starfsfólk og þar bjó Ólafur í einu herbergi í suðausturhorni hans.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ólafsbragginn í upphaflegri mynd.

 

 

 

 

 

     Ólafsverksmiðjan var byggð í framhaldi og síldarþró framan við hana. Þegar þessum framkvæmdum var lokið seldi Ólafur sögunarverkið norður í Hrísey en kom upp minni sögun inni í verksmiðjunni sem drifin var af sömu vélinni og dreif allar vélar verksmiðjunnar. Guðjón Magnússon á Kjörvogi sagaði mikið þarna fyrir Ólaf, við sem fór á markað í Reykjavík.

     Á ýmsu gekk og Ólafur lenti í fjárhagsörðugleikum 1938 og reyndi með misjöfnum árangri að fá eftirgefin laun hjá starfsfólki sínu. (Bréfasafn Guðbjargar Pétursdóttur Eyri)

     Á þessum tíma bjó og mataðist  Ólafur og hans starfsfólk á efri hæð Ólafsbraggans. Í  austur enda neðri hæðar Braggans  var Ólafur með skrifstofu og litla verslun. Um hana sá maður sem Stefensen var kallaður. Gunnsteinn Gíslason passaði börn fyrir Jensínu Guðlaugsdóttur föðursystur sína sem var matráðskona hjá Ólafi Guðmundssyni. Þetta var meðan bygging verksmiðju Ingólfs hf stóð yfir. Ólafur hafði selt Ingólfi hf eignir sínar og lóðir en var áfram með reksturinn til hausts 1943. (Gunnsteinn Gíslason)

 

Erlend móðurskip

     Samkvæmt tilskipun frá 12. febrúar 1872 og ýmsum seinni tíma bálkum var útlendingum og erlendum fiskveiðifélögum stranglega bannað að leggja á land fisk til eigin vinnslu. Þessum ákvæðum hafði verið slæglega framfylgt en lá samt í loftinu. Það voru hinar stórauknu síldveiðar Norðmanna á fyrri stríðsárunum sem verða til þess að tilskipunum og lagabálkum er steypt var saman í lög 19.  júní 1922. Þar með stöðvaðist öll síldarvinnsla erlendra aðila en þeir söltuðu eitthvað í móðurskipum utan þriggja mílna landhelginnar.

     Sæskt síldarsöltunarfélag Öckerö fékk aðstöðu á Eyri sumarið 1936. Sú aðstaða fólst í því að þeir fengu að geyma ýmsan varning í landi svo sem oíutunnur, síldartunnur salt og veiðarfæri. Þeir fengu vatn og keyptu gjarnan kjöt af nýslátruðu geldfé og létu í staðinn  öngla færi og hnífa en ekki síst brennivín. Félagið var með móðurskip sem saltað var í og snurpunótabáta við veiðarnar. Erlend veiðiskip þurftu að halda sig utan við þiggja sjómílna landhelgina eins og hún var á þessum tíma. Söltun í skipum fór fram utan við landhelgina og þótti fremur slæm vinna. (Gunnar á Eyri)

 

 

 

Sænska fragtskúran Svanurinn

 

     Frásögn Johan Bäck af ævintýratúr sem hann fór í sumarið 1935 með fjögra mastra fraktskútunni Svaninum á síldveiðar við Íslandsstrendur.

„Við sem tilheyrðum Öckerö síldarsöltunar félaginu vorum með bækistöð í Ingólfsfirði til að byrja með. Við vorum í síldarleit í fyrstu 14 dagana án þess að sjá eina einustu síld......en svo eitt kvöldið þegar við vorum á leið inn á Ingólfsfjörð þá birtist hún allt í einu. Kom upp að yfirborðinu og það var glitrandi síld út um allan sjó. Sá sem sá torfuna fyrst þorði ekki að kalla hátt af hræðslu við að fæla síldina í burtu, svo hann hífði upp fána sem merki til þriggja minni snurpunóta báta sem veiddu síldina fyrir okkur“.  (/sigló.is  þýðing Jón Ólafur Björgvinsso).

 

Johan Bäck: Við skruppum stundum í land og þá varð nú „tjo og tjim“(gleðskapur) og dans á bryggjunni. Þá var auðvitað brennivín með í för, smyglvín sem við földum vel. Ég man að það komu stundum stelpur um borð sem við kölluðum Lúlú, Lóu og Víólu….  (/sigló.is  þýðing Jón Ólafur Björgvinsso).

 

     Að lesta flutningaskip með sídartunnum var vandasamt verk og erfitt. Til að sjá um það á Eyri var fenginn Reykvískur sérfræðingur Þorlákur Jónsson sem kallaður var Tunnu-Láki. Tunnustúfun í lest skipa var ekki fyrir nema hraustustu menn og galt Láki fyrir það „Siglufjarðartaxta“ sem var tvöfalt kaup. (Gunnar á Eyri)

 

     Þetta sumar 1936 eru saltaðar 13.655 tunnur á Ingólfsfirði. Þá eru tvær stöðvar starfandi á Eyri, Thorsteinsson stöðin sem Egill Ragnars og Karvel Jónsson hafa keypt og stöð sem Ólafur Guðmundsson byggði á grunni Norðmannastöðvarinnar frá 1916.

 

 

 

Verksmiðja Ingólfs h/f

     Aðdragandi verksmiðjubyggingar Ingólfs hf. var nokkuð langur. Margt kom þar til heimskreppan, innflutningshöft og gjaldeyrisleysi. Geir Thorsteinsson ritar Hreppsnefnd Árneshrepp bréf  dagsett 23.4.1937 þar sem hann óskar eftir að sveitarfélagið útvegi lóð úr landi Eyrar innan við Th. lóðina 200 m með sjó fram. Hreppsnefnd samþykkir þetta samhljóða þó ekki fyrr en 10. nóvember 1937 og felur Guðjóni  Guðmundssyni að ganga í málið en Egill Ragnars og Óskar Halldórsson voru með ónotaðar leigulóðir á þessu svæði. (skjölÁrneshrepps) Ólafur Guðmundsson átti miklar eignir og stærsta hluta lands á Eyrinni. Við hann þurfti samkomulag. „Það gekk seint  og um tíma var áformað að byggja verksmiðjuna innan við Eyrarkleif í landi Ingólfsfjarðar“. (Hjörtur Hafliðason)

Lóðin var ekki eini þröskuldurinn því mikil innflutningshöft voru í gangi og leyfi vélakaupa frá stjórnvöldum ekki auðfengin.

     Árið 1942 fékkst loks umbeðið leyfi frá ríkisstjórn, samningar tókust og hafist handa við byggingu nýrrar síldarverksmiðju á Eyri. (Sjá bls ?? Verksmiðja Ingólfs h/f

 

Félagið sem stóð að því hét  Ingólfur hf. Aðaleigendur þess voru útgerðarmennirnir Geir Thorsteinsson Reykjavík og Beinteinn Bjarnason í Hafnarfirði. Geir var sonur Th. Thorsteinssonar sem reisti Thorsteinssonstöðina 1919. Beinteinn var sonur séra Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði. Þeir kunnu vel til verka enda báðir komnir af miklum athafnamönnum.

 

„Núverandi ríkisstjórn hefir veitt Geir Thorsteinsson og Beinteini Bjarnasyni heimild til byggingar allt að 5000 mála verksmiðju á Ingólfsfirði.“  (Sjómannablaðið Víkingur 1.10.1942).

 

     Ingólfur hf. keypti eignir Thorsteinsson stöðvarinnar og eignir Ólafs Guðmundssonar sem fyrr segir auk allra lóða á svæðinu. (Skjöl Gunnars á Eyri)

Þórður Runólfsson verkfræðingur teiknaði verksmiðjuna og var jafnframt verksmiðjustjóri fyrsta sumarið.(Gunnar á Eyri)

Helgi Eyjólfsson byggingameistari tók að sér að um bygginguna. Yfirsmiður var Hjörtur Hafliðason og múrarameistari var Sveinn Pálsson. Hjörtur kom norður vorið 1942 með byggingaflokk. Fyrsta verkið var að koma sér fyrir og útvega matföng fyrir mannskapinn. Keypt var kjöt og fiskur af bændum en lítið var um mjólk. Til að bæta úr því keypti Hjörtur kú og kom henni fyrir hjá Jóni Valgeirssyni og Elísabetu Ólafsdóttur í Ingólfsfirði með þeim skilmálum að bóndinn annaðist kúna og seldi þeim mjólkina og eignaðist hana þannig. Um haustið var keypt fé á fæti, slátrað á staðnum og sett í salt. (Hjörtur Hafliðason). Brauð voru stundum keypt frá Hólmavík  og flutt með bát ma. Birnu en oftast komu brauðin frá bakaríinu á Djúpavík. Steini á Finnbogastöðum (Þorsteinn Guðmundsson) flutti brauð á reiðingshesti oftast vikulega í pokum frá Djúpavík að  Eyri. Þegar Ólafur hætti vinnslu var komið upp bakaríi í Ólafsverksmiðjunni. (Gunnsteinn Gíslason)

     Mannskapurinn bjó í Thorsteinsson bragganum og Egilsbragga / Lagerhúsinu. Í Egilsbragga var skrifstofa og þar hafði Guðjón hreppstjóri aðstöðu en hann annaðist allar fjárreiður fyrir Ingólf  h/f á staðnum og þar með útborgun launa. Til er mynd sem sýni þá athöfn. Löng biðröð er við Lagerhúsið en Guðjón borgaði verkamönnum út í peningum útum gluggan á skrifstofunni. Tvær íbúðir voru í Egilsbragga og þar bjuggu samverkamennirnir Hjörtur byggingameistari  Sveinn múrarameistari með fjölskyldur sínar. Þannig stóð á að báðar eiginkonur þeirra voru ófrískar og fæddust bæði börnin þar um sumarið 1942. (Hjörtur Hafliðason)

 

     Hjörtur Hafliðason var Reykvíkingur fæddur 1913. Hann var reyndur húsasmíðameistari og sá alfarið um byggingu verksmiðju Ingólfs hf. fyrir hönd Helga Eyjólfssonar byggingameistara. Hann var maður athafna og vildi að hlutirnir gengju hratt fyrir sig og gerði bæði þær kröfur til sjálfs sín og annarra. Hjörtur var mjög vandvirkur og vann ma. mikið prívat fyrir forystumenn Sjálfstæðisflokksins.

 

     Til eru um tvö hundruð myndir sem sýna byggingarsögu verksmiðjuhúsanna teknar af Hirti Hafliðasyni. Þær sýna þaul skipulagt og faglegt verklag. Hjörtur afhenti Ágj. myndirnar til notkunar í umfjöllun þessa.

 

     Verkið hófst á að handgrafnir voru skurðir og púkkaðir með grjóti fyrir undirstöðum fyrsta áfanga verksmiðjuhúsanna. Talsvert þurfti að sprengja fyrir verksmiðjuhúsinu (ketilhúsi  þurkarasal og lýsistank) og var efnið sem þar féll til notað undir þrærnar sem náðu nokkuð út í sjó.

 

Við borun vegna sprenginga var notaður bensíndrifinn handbor frá Warsop Petrol Drill & Tools Ltd.  Tækið gat borað um einn meter á klukkustund og til þess þurfti tvo menn annan sem stýrði bornum en hinn snéri handknúinni sambyggðri  loftdælu sem blés steinmjölinu jafnóðum upp úr borholunni.

 

     Verkinu var áfangaskipt. Fyrst var steypt upp verkstæðið, mótorhúsið, skilvindu og pressurými. Þar eftir ketilhús og þurrkarasalur. Því næst þrærnar og síðast lýsistankurinn og undirstöður mjölhúss.

 

     Steypuefni var ekkert á staðnum.  Upphafleg stóð til að vega yfir Eyrarháls  og taka efnið í Árnesi. Frá því var horfið og í staðinn sprengt úr Eyrarkleyfinni og lagður vegur inn í á Ingólfsfjarðarsand. (Hjörtur Hafliðason).  

 

Inni á Ingólfsfjarðarsandi var reistur skúr. Þar höfðu skjól fjórir menn sem mokuðu steypuefni á bíla. Þeir voru: Eyríkur Eyríksson Eyri, Ágúst Pálsson Landeyingur, Guðmundur Böðvarsson og Sumarliði Ólason frá Ingólfsfirði. (Gunnsteinn Gíslason)

 

     Möl í steypuna var sótt sjóleiðina út á Munaðarneshlíð. Það var mikil vinna kringum það. Trossaðir voru saman tveir nótabátar, smíðaður og pallur yfir þá og úr því varð til malarflutningaprammi. Mölinni var mokað í hjólbörur og ekið eftir sliskju út á pallinn og líka mokað í poka og borin. Þegar nó var komið á pramman var  allt dregið með trillu  inn að Eyri, mölinni aftur mokað aftur í hjólbörur og henni ekið í land og að steypuhrærivélinni. Þessi mannfreka steypuefnisöflun jók mjög byggingarkostnað.  (Gunnar á Eyri)

 

     Vélsmiðjan Héðinn hf. með Pétur Vermundsson vélstjóra sem stjórnanda á Eyri sá um uppsetningu véla og búnaðar og smíðaði auk þess ýmis tæki. (Ingólfur á Eyri)

 

Pétur Vermundsson var Húnvetningur fæddur 1895. Hann var vélskólagenginn mótoristi á bátum og seinna yfirvélstjóri hjá Dr. Paul og síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði. Þar hætti hann 1943 og réði sig hjá vélsmiðjunni Héðni sem fékk hann til að stjórna uppsetningu véla og vélbúnaðar á Ingólfsfirði og við það var Pétur að mestu í tvö ár. Um Pétur var sagt að “allt léki í höndunum á honum“. (Ingólfur á Eyri)

 

     Fyrsta verkefni Péturs var að koma upp litlu vélaverkstæði í hálfbyggðu verksmiðju húsinu. Það var búið nauðsinlegustu verkfærum svo sem súluborvél smergelvél  voru settir upp tveir notaðir rennibekkir. Sá stærri sem enn er á staðnum kom úr Héðni er að líkindum smíðaður um eða fyrir aldamót 1900 og hafði ma. verði notaður syðra til að renna togaraöxla. (Gunnar á Eyri) (sjá Iðnsögu Íslands)

 

     Löndunarbryggjan var 44 m m löng og 7-9 metrar á breidd. Fyrsta verki var að smíða rambúkka. Rambúkki er stór prammi með fallhamri á til að reka niður bryggjustaura. Sigurjón Sigurðsson frá Bekanstöðum í Skilmannahreppi stjórnaði smíði löndunarbryggjunar og með honum ma. bryggjusmiðir frá Súðavík. Vélsmiðjan Héðinn smíðaði jafnframt löndunarkranann sem var gríðarmikið og fallegt tæki en fyrst og fremst mjög tæknilega fullkomið apparat á þeim tíma. Hægt var að landa úr tveim bátum í einu og afkastageta var mikil eða um 1000 mál á klukkustund. (Ingólfur á Eyri)

 

     Steinsteyptar síldarþrær tóku 20.000 mál sem er um 2.700 tonn. Þrærnar voru tengdar verksmiðjuhúsunum með gangi rúma fjóra metra yfir jörð og þar í gegn liggur vegurinn inn í Ingólfsfjörð.

 

     Lýsistankur var steyptur og tók um 2.500 tonn (eða sem svaraði 25.400 115,8 lítra tunnur) og annar tankur jafn stór var fyrirhugaður úr stáli. Hann komst aldrei upp en fyrir honum sprengt og grafið. Allt efni í tankinn var komið á staðinn. Það var selt burtu. (Gunnar og Ingólfur á Eyri)

 

     Mjölhúsið var þúsund fermetra skemma byggð úr timbri og klædd með asbesti. Því húsi kom Guðjón Magnússon á Kjörvogi upp á mettíma vorið 1944. Áætlað var að það tæki 3.000 tonn af sekkjuðu síldarmjöli eða 30.000, 100 kílóa sekki. (Sjá Mjölhúsið á Eyri Ágj)

                                                                                                       

     Afkastageta verksmiðjunnar var í upphafi 2.500 mál á sólarhring en ekki fékkst heimild fyrir  meiri vélakosti í upphafi. Önnur samskonar samstæða kom svo og tvöfaldaðist þá vinnslugetan í 5.000 mál 1945-6.

Verksmiðjan var drifin með rafmagni frá diselvélum sem voru tvær 600 kvA vélar af  Allen gerð einn 100 kvA Caterpillar og 100 kvA Petter sem enn er ástaðnum. Tveir gufukatlar og tveir þurrkarar voru kolakynntir.

 

Þetta var kostnaðarsöm orkuframleiðsla. Rafmagn framleitt með olíu hefur varla geta orðið ódýrara en 8 aura pr. kwh. miðað við eldsneytisverð fyrir stríð, en rafmagn frá vatnsorkustöð var talið kosta 1 eyrir pr. kwh.

 

Vinnukallar Hjartar komu víða að ma. þrír bræður þykkir, Skagfirðingar frá Hróarsdal. Tveir voru smiðir Páll og Sigurður en Hróbjartur múrari  og voru Jónassynir. Hróbjartur hlóð ma. múrsteininum inn í þurkaraofnana. Bræðurnir höfðu nokkra sérstöðu því þeir komu úr 12 systkina og 20 hálfsystkina hópi samfeðra. (Gunnsteinn Gíslason)

 

Kokkurinn fór nokkuð reglulega á fyllerí. Það sást fyrir því ef kokksi kom með pönnukökur og súkkulaði til Hjartar milli fimm og sex að morgni var hann fullur daginn eftir. (Hjörtur Hafliðason)

  

Upphaflega hafði verið áætlað að verksmiðjan tæki til starfa sumarið 1943. Dráttur á leyfisveitingum tafði framgang og einnig tafðist afgreiðsla efnis og tækja af völdum styrjaldarinnar. Þessir samverkandi þættir urðu til þess að verksmiðjan var ekki gangsett fyrr en 1944.

 

Björgvin Bjarnason

   Samningur var gerður milli Ingólfs hf. og Björgvins Bjarnasonar Ísafirði um að bátar hans Richard, Huginn I, II og III, Muninn, Grótta leggðu upp bræðslusíld hjá Verksmiðju Ingólfs hf. en söltunarhæfa síld ætlaði Björgvin að salta sjálfur. Til þess fékk fékk hann bryggjur og plön Ólafs Guðmundssonar og Thorsteinsson braggan sem mötuneyti og  íveruhús fyrir sitt fólk. (Sjá nánar bls. 00 Rekstur Björgvins Bjarnasonar á Eyri)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Síldarsöltun á Eyri 1946 á nýgerðri tengingiu milli Ólafsbyggjanna.

Mynd: Sigríður Aðalsteinsdóttir

 

Planformaður hjá Björgvin var Halldór Ólafsson og frá Ísafirði eins og flest starfsfólk hans.

Meðal söltunarstúlkna var Sigríður Aðalsteinsdóttir f. 1928.(sjá myndir)

 

     „Minn tilvonandi maður var á bát frá Björgvin sem lagði upp á Eyri. Ég var við söltun með verðandi tengdamóður minni og mágkonu. Það var glatt á hjalla, Ingólfur (Pétursson) í Ófeigsfirði spilaði á harmonikku og Gvendur þribbi kenndi okkur dans sem oft var á hverju kvöldi“. (Sigríður Aðalsteinsdóttir)

 

„Í hópi Ísfirska síldarsöltunarfólksins á Ingólfsfirði árið 1946 var Gvendur þribbi (Guðmundur Valdimar Snæland) Hann var vel þekktur úr bæjarlífinu, bjó líklega í Dægradvöl, svolítið utangarðs, drykkjumaður og hafði gaman af að dansa.

Viðurnefnið fékk hann vegna þess að hann var þríburi, hinir létust strax við fæðingu.“ (Bæjarins besta 1.4.2020.)

                

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

                                                  

 

 

 

 

 

 

Guðmundur Valdimar Snæland við Ólafsplanið á Eyri. Ljósmynd: Sigríður Aðalsteinsdóttir sími 5611762

 

 

Heimildamenn:

Guðjón Guðmundsson Eyri  f. 1890

Gunnar Guðjónsson Eyri  f. 1917

Guðbjörg Pétursdóttir Eyri f. 1920

Ingólfur Guðjónsson Eyri  f.1920

Ólafur Ingólfsson Eyri f. 1941

Guðjón Magnússon Kjörvogi f.1908

Hjörtur Hafliðason byggingameistari Reykjavík f.1913 Viðtöl

Ragnheiður Thorsteinsson  Reykjavík f. 1931 Sími 551-8765 vinnusími

Ragnar Thorsteinsson Reykjavík f. 1925          Sími 565-7208                                                    Kristín Þorvaldsdóttir frá Þingeyri f. 1919 viðtal                                                                                   Höskuldur Ólafsson bankastjóri Verslunarbanka  samtal

Halldór Júlíusson samtal 14.02.2009 og 22.10.2020.

Ásmundur Ólafsson Akranesi (barnabarn Þórðar Ásmundssonar)

Sigfríður Georgsdóttir  úr Garði f.1920 Viðtal.

Jón Ágúst Sigmundsson Strandberg frá Þingeyri  f. 1919 Viðtal

Sigríður Aðalsteinsdóttir frá Ísafirði f. 1928 símaviðtal 2020

 

Prentaðar heimildir.

Síld og síldariðnaður  Ástvaldur Eydal Kristinsson 1941.

Lífið er dásamlegt bls.18-28 Jónas Sveinsson 1969      (Jónas f. 1895)

Saga Akraness II bindi bls. 79-83 Ólafur B. Björnsson 1959

Strandapósturinn 40 árg. bls. 106-112 Haukur Jóhannesson 2008 v/Munaðarnesstöð

Strandapósturinn  35. árg bls. 82-86. Fyrsta vélsögun á Ströndum Gunnar Guðjónsson.

Strandapósturinn  35. árg bls.113-117. Strandið á Selskeri Gunnar Guðjónsson.

Hrundar borgir  bls. 153-178 Þorsteinn Matthíassson 1973

Guðlaug Vilbogadóttir: Ritgerð. Með hús í farangrinum maí 2011

Íslensk skip 1990 IV bls.11 Jón Björnsson frá Bólstaðarhlíð.

Þeir settu svip á öldina íslenskir athafnamenn  Gils Guðmundsson I.  1987

Þeir settu svip á öldina íslenskir athafnamenn  Gils Guðmundsson II.  1988

Silfur hafsins-gull Íslands Síldarsaga Íslendinga 1 Steinar J.Lúðvíksson 2007

Silfur hafsins-gull Íslands Síldarsaga Íslendinga 2 Hreinn Ragnarsson Reykjavík 2007

Silfur hafsins-gull Íslands Síldarsaga Íslendinga 3 Guðni Th. Jóhannesson Reykjavík 2007

 

Aðrar heimildir.

Bækur Sýslumanns Strandasýslu á Þjóðskjalasafni v/  lóðir á Eyri.

Skjöl og fundargerðir Árneshrepps í vörslu Hauks Jóhannessonar.

Skjöl í vörslu Ásmundar Ólafssonar Akranesi v/ Teigastöð.

Skjöl í vörslu Ásgeirs Gunnars Jónssonar v/rekstur Egils Ragnars og Karvels Jónssonar.

Bréfasafn Guðbjargar Pétursdóttur Eyri.

Sjöl Gunnars Guðjónssonar í vörslu Ásgeirs Gunnars Jónssonar.

bottom of page