top of page

Ólafsverksmiðjan á Eyri

Framleiðsla fiskimjöls og fiskiolíu hófst hér á landi um 1910. Voru Norðmenn brautryðjendur í því sem öðru er laut að síldariðnaði hér á landi, en þeir nutu aftur góðs af reynslu Ameríkumanna í þessari iðngrein. Vinnsluaðferðin er í grundvallaratriðum enn sú sama og var á fyrstu árum þessa iðnaðar. Þess má þó geta. að fleytiker voru notuð til vinnslu á lýsinu í fyrstu, en um 1930 var farið að nota skilvindur í stað fleytikerja, og var sú þróun komin langt á veg um 1935.

Ólafur Guðmundsson hafði rekið síldar söltun á Eyri frá árinu 1932. Úrgangur frá plönum og ósöltunarhæf síld féll alltaf til í mismiklu magni sem oftast var bara mokað í sjóinn. Ólafur réðist því í að byggja litla síldarbræðslu á árunum 1936-37 til að gera verðmæti úr þessu hráefni. Verksmiðjan bar þess merki að ekki var auðvelt að fá innflutt efni og tæki og því síður peningalega fyrirgreiðslu. Þetta var djörf ákvörðun af einum manni í miðri heimskreppunni.

Grunnur var steyptur og veggir upp í 40 sm. hæð. Burðarvirki var allt úr rekatimbri sem sagað var á staðnum. Í þaki voru kraftsperrur og undir þeim miðjum dregari og stoðir. Þak og veggir voru langböndum og allt járnvarið. Stærðin var 16,25 x 25,5 m eða um 414 fermetrar. Vegghæð 3,5 m og mænishæð um 6 m.

Innandyra skiptist húsið í bræðslu sem var í norðurenda, þurrkun og einnig var þar þvottahús og eldsmiðja. Yfir norðurhluta var geymsluloft. Fimmtíu hestafla Tugsham glóðarhaus vél dreif allan vélbúnað verksmiðjunnar. Ljósavél af June Munktel gerð með 4 kW rafala var sett upp og lýsti verksmiðjuna, plönin og Ólafsbraggan. Tveir Norðmenn Kristian M. Huseby, koparsmiður og Viktor Jakobsen járnsmiður frá hf. Hamri smiðju í Reykjavík settu upp vélar og búnað verksmiðjunnar og var Viktor Jakobsen versmiðjustjóri. Þeir kölluðu verksmiðjuna sín á milli Kaminen.

Framan við verksmiðjuna var gerð 3000 mála síldarþró úr timbri á steyptum grunni. Hún var þannig gerð að steyptir voru niður sívalir rekastaurar um 6 tommur í þvermál um 10 feta háir með fets millibili og klætt innan á þá með láréttum plönkum. Utan með þrónni sambygð steyptum botni hennar var renna sem tók hrálýsið sem rann frá síldinni. Þetta var all mikið timburmannvirki.

Síldinni var landað í handvagna og ekið eftir bryggjunum og eftir braut sem lá upp og yfir þróna og ýmist sturtað í þróna eða ekið inn í verksmiðjuna. Þessi akstur upp og yfir þróna var talið erfiðasta verkið og var þó flest gert á höndum á þessum tíma. Til að auka geymsluþol var salti stráð í þá síld sem fór í þróna. Síldin var brædd (soðin) í stórum kolakyntum pottum. Lýsinu var fleytt ofan af þeim og tappað á tunnur til útflutnings. Það sem eftir var fór í dúkapressu sem kölluð var. Hún vann með þeim hætti að maukinu sem eftir varð var mokað í pressu kassann og búið um klessurnar í striga og járnplötum raðað á milli. Síðan var pressan hert með handafli og vökvinn pressaðist út um göt á kassanum og lýsinu einnig fleytt af þeim vökva. Því næst fóru kökurnar í þurrkara og þar með tilbúnar á markað. Verksmiðjuna rak Ólafur frá 1937-1943.

Tugshm vélin dreif einnig sögunarverk sem Ólafur kom upp í verksmiðjunni og rak utan bræðslu tíma. Þar var mest sagaður smíðaviður af ýmsum gildleikum, borðviður og batningar sem Ólafur sendi með strandferðaskipum suður á markað. Söguninni stjórnaði Guðjón Magnússon smiður á Kjörvogi.


Ólafsverksmiðjan. Tómtunnupíramíti er ofan við Ólafsplanið. Þarna er búið að rífa þróna


Ólafur selur verksmiðjuna Hæng h/f (Gísla Jónssyni) á Bíldudal. Gísli flutti bræðslu búnað og þurrkara til Bíldudal en seldi húsið með smiðjuvekfærunum.

Ingólfur h/f eigast húsið 1943. Þá er innréttað þar bakarí og geymslur og auk þess var þvottahúsið stækkað. Í þvottahúsin var kolakyntur þvottapottur og gríðar mikil handsnúin taurulla. Bakaríið var búið stórri Hobart hrærivél og tveim bakarofnum frá Rafha í Hafnarfirði. Yfir bakaríinu var loft og þar var oft vel heitt. Þar brugguðu verksmiðju kallarnir. Kunnáttumenn á verkstæði smíðuðu áhöld til suðu og bakarinn var jafnan hjálplegur, upp á hlut með pressuger og sykur. (Höskuldur Ólafsson) Eldsmiðjan í norðvestur horni heldur sér óbreytt.

Sjávarhús (Rauðiskúrinn), Ólafsbraggi, Olíubragginn Ólafsverksmiðjan og ofan hennar Eiríkshús. Fjær eru íbúðarhús Eyrarmanna. Næst fyrir miðri mynd er Rambúkkinn* fast við steyptar undirstöður síldarþróar Ólafs Guðmundssonar.


Gunnar og Ingólfur Guðjónssynir eignast húsið eins og aðrar byggingar á staðnum árið 1978. Þeir notuðu húsið til geymslu á dráttarvélum, bílum og bátum.


Verksmiðjuhús á Eyri 1992. Myndin tekin úr Örkinni ST-19 frá SeljanesiÞak Ólafsverksmiðjunnar féll að hluta undan snjóþunga í mars 1957 og skemmdist þá bíll sem hýstur var þar. Þakið var þá endurgert með sama hætti. Veturinn 1992 brotnaði miðhluti þaksins aftur niður og einnig miðhluti olíubraggans undan snjó. Það sem eftir stóð var rifið og brakinu brennt þá um sumarið.


Eyri á vordögum 1995

Ásgeir Gunnar Jónsson


Heimildir: Skjöl Gunnars Guðjónssonar

Munnlegar heimildir:

Gunnar Guðjónsson. Eyri

Ingólfur Guðjónsson Eyri

Guðjón Magnússon Kjörvogi

Höskuldur Ólafsson Reykjavík

Ps. *Rambúkki er nokkuð stór prammi með gálga spili og fallhamri sem var 4-500kg og var notaður til að reka niður bryggjustaura.bottom of page